Heimildarmenn tala um hápólitískt drama

Yi Peng 3 liggur enn við akkeri eftir að hafa …
Yi Peng 3 liggur enn við akkeri eftir að hafa varpað þeim á miðju Kattegat. Danski sjóherinn fylgist grannt með. AFP

Stjórnvöld Danmerkur og nokkurra annarra ríkja eiga nú í áköfum samningaviðræðum við Kína vegna kínverska flutningaskipsins Yi Peng 3, sem legið hefur við akkeri fyrir miðju Kattegat í nærri viku.

Ríkisútvörp Svíþjóðar og Danmerkur greina frá þessu og segir á vef þess danska að málið sé hápólitískt drama.

Hafa ríkismiðlarnir tveir eftir heimildarmönnum sínum að með viðræðunum sé leitast við að fá að fara um borð í skipið vegna grunsemda um að áhöfn þess hafi rofið tvo sæstrengi í Eystrasalti fyrir um viku.

Danski sjóherinn hefur gætt skipsins frá því áður en það nam staðar og telja má líklegt að það hafi varpað akkerum fyrir tilstuðlan Dana.

Pattstaða í Eystrasalti

Um helgina sendu stjórnvöld Þýskalands og Svíþjóðar einnig skip á vettvang. Þegar þetta er ritað lóna þar, auk þess kínverska, tvö þýsk skip og eitt danskt – HDMS Hvidbjørnen, sem hefur nokkrum sinnum átt viðkomu á Íslandi.

Heimildarmaður danska ríkisútvarpsins, sem kunnugur er viðræðunum, segja að samhliða ræði ríkin sín á milli um hvernig megi komast út úr þeirri pattstöðu sem upp er komin.

Þá er rætt um hvort Kína muni leyfa sænskum yfirvöldum að yfirheyra áhöfnina og rannsaka hvort skipið hafi átt aðild að spellvirkjunum, en Svíar fara með rannsókn þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka