Jack Smith, sérstakur saksóknari í máli ákæruvaldsins gegn Donald Trump Bandaríkjaforseta vegna gruns um tilraunir hans til að hafa áhrif á úrslit forsetakosninganna árið 2020, þegar hann beið lægri hlut gegn Joe Biden, hefur farið þess á leit að málið gegn Trump verði fellt niður.
Þar sem Trump bar sigur úr býtum í nýafstöðnum forsetakosningum banna reglur bandaríska dómsmálaráðuneytisins saksókn gegn honum sem sitjandi forseta.
Varð dómarinn Tanya Chutkan við beiðni saksóknara og felldi málið niður, þó með þeim fyrirvara að sækja mætti Trump til saka á ný er hann lýkur því kjörtímabili sem nú er að hefjast.
„Löngum hefur það verið sýn dómsmálaráðuneytisins að stjórnarskrá Bandaríkjanna leggi bann við alríkisákæru og eftirfarandi sakamálaferlum gegn sitjandi forseta,“ ritaði Smith í greinargerð með umleitan sinni og bætti því við að beiðni hans tengdist því engan veginn hvort málið gegn Trump teldist líklegt til sakfellingar eður ei.
Lognmolla hefur hvorki einkennt embættisfærslu Trumps né það fjögurra ára tímabil sem hann var á milli kjörtímabila og í byrjun þessa árs átti hann yfir höfði sér um eitt hundrað ákæruatriði fyrir fjölda brota í embætti sem utan þess. Hæstiréttur Bandaríkjanna komst í sumar að þeirri niðurstöðu að ekki væri unnt að sækja Trump til saka fyrir „opinbera embættisfærslu“ hans og í kjölfarið bauð hann sig fram á ný fyrir kosningarnar í byrjun þessa mánaðar.
Sjálfur hafði hann ákveðnar skoðanir á málaferlunum sem nú verður ekkert af og ritaði á samfélagsmiðlasíðu sína, Truth Social, að málatilbúnaðurinn gegn honum væri „holur og löglaus og skyldi aldrei hafa átt að verða“.
Varaforsetinn verðandi, JD Vance, kvað allan málatilbúnað gegn Trump af pólitískum rótum sprottinn. „Hefði Donald J. Trump beðið lægri hlut í kosningum hefði hann vel getað eytt ævinni í fangelsi,“ skrifaði Vance á samfélagsmiðla.