Hópmálsókn gegn fyrrverandi Spánarkonungi

Fregnir af vafasömum auði Spánarkonungsins fyrrverandi, Jóhanns Karls, hafa stórskaðað …
Fregnir af vafasömum auði Spánarkonungsins fyrrverandi, Jóhanns Karls, hafa stórskaðað orðstír hans og spænska konungdæmisins. AFP

Fyrrverandi Spánarkonunginum Jóhanni Karli hefur verið stefnt fyrir meint skattalagabrot og eru stefnendur meðal annars nokkrir dómarar á eftirlaunum sem telja að það sé í verkahring dómara frekar en saksóknara að ákvarða hvort þjóðhöfðinginn fyrrverandi hafi staðið skil á sköttum sínum.

Saksóknarar hafa þó komið að málum Jóhanns en í mars 2022 var þremur rannsóknum ákæruvaldsembætta á fjármálum hans hætt í ljósi ónógra sönnunargagna auk þess sem meint brot voru fyrnd. Gáfu saksóknararnir það þó út að ýmislegt misjafnt hefði komið fram við rannsókn þeirra.

Meðal þess voru voru gjafir frá þjóðhöfðingjum Arabaríkja við Persaflóa auk ferðalaga sem kostuð voru af stofnun í evrópska smáríkinu Liechtenstein.

Enginn hagur af fangelsisdómum

Eitthvað misjafnt hefur konungurinn fyrrverandi, sem nú er 86 ára gamall, viðurkennt að hafa aðhafst þar sem hann reiddi fram rúmlega fimm milljónir evra, jafnvirði um 728 milljóna íslenskra króna, í tveimur greiðslum til spænskra skattyfirvalda, sem ætlað var að standa undir skattgreiðslum af óuppgefnum tekjum, en almennt var litið á greiðslur konungsins fyrrverandi sem tilraun til að forðast saksókn.

Hæstaréttardómarinn fyrrverandi, Jose Antonio Martin Pallin, einn stefnenda, sagði í dag við spænska ríkisútvarpið TVE að leiðréttingar Jóhanns á skattframtölum tekjuáranna 2014 til 2018 hefðu ekki verið í samræmi við spænsk skattalög.

„Við höfum engan hag af því að sjá fangelsisdóma upp kveðna,“ sagði Pallin en bætti því við að þeir stefnendur vildu sjá konunginn fyrrverandi dæmdan til greiðslu hæstu sektar sem lög leyfðu.

Fleiri en dómararnir eru þó í hópi stefnenda og telst um hópmálsókn að ræða því þar er einnig að finna lögfræðinga, aðra en dómarana, heimspekinga og blaðamenn, eftir því sem Pallin greindi frá. Hann tilgreindi þó ekki heildarfjölda stefnenda.

Dýrkaður og dáður eftir lát Francos

Jóhann Karl var dýrkaður og dáður sem þjóðhöfðingi fyrir miklar umbætur hans á árunum í kjölfar þess er einræðistíma hins illræmda Franciscos Francos lauk með dauða hans árið 1975, en þá lyfti hann grettistaki við að koma á lýðræðislegum stjórnarháttum á Spáni.

Fregnir af vafasömum uppruna auðs konungsins fyrrverandi, frá því hann afsalaði sér krúnunni árið 2014, hafa unnið orðstír hans óbætanlegt tjón auk þess að skaða spænska konungdæmið. Jóhann Karl hélt í sjálfskipaða útlegð til Sameinuðu arabísku furstadæmanna árið 2020.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert