Ekkert bendir til þess að brotlending vöruflutningavélar DHL hafi verið hryðjuverk, að sögn varnarmálaráðherra Litháens, Laurynas Kasciunas, sem kvaðst þó ekki geta útilokað það.
Telur hann rannsókn á því hvað orsakaði slysið munu taka viku.
Einn lést og þrír slösuðust þegar vélin brotlenti skammt frá alþjóðaflugvellinum í Vilníus, höfuðborg Litháens, seint í nótt að staðartíma. Sá látni er spænskur ríkisborgari en hinir þrír eru spænskir, þýskir og litháískir ríkisborgarar.
Vélin var á leið frá Leipzig í Þýskalandi.
Á myndum frá vettvangi brotlendingarinnar má sjá brak flugvélarinnar og pakka í ljósum logum á víð og dreif um íbúðahverfi sem viðbragðsaðilar voru búnir að loka af.
„Við getum ekki útilokað hryðjuverk. Við höfum varað við því að slíkt sé mögulegt. Við sjáum að Rússar eru að verða sífellt árásargjarnari. En við getum ekki dregið neinar ályktanir enn þá,“ sagði yfirmaður öryggismála ríkisins, Darius Jauniskis.
Litháíska lögreglan sagði flugvélina hafa brotlent og síðan runnið nokkur hundruð metra langan kafla. Rakst vélin þá á íbúðahús, sem kviknaði í, smærri byggingar og bíl.
Tólf íbúar hússins sem flugvélin rann á komust óhultir út úr byggingunni.
„Við vöknuðum við hljóð frá sprengingum. Í gegnum gluggann sáum við raðir sprenginga og mikinn eld, eins og flugeldar,“ sagði Stanislovas Jakimavicius, sem býr í 300 metra fjarlægð frá vettvangi slyssins.
DHL sagði flugvélina hafa „nauðlent“ í Litháen.
„Við getum staðfest að í dag, þegar klukkan var um það bil 4.30, þá hafi flugvél SwiftAir, sem var rekin af samstarfsfyrirtæki fyrir hönd DHL, nauðlent í um kílómetra fjarlægð frá VNO-flugvellinum á leið frá LEJ-flugvellinum til VNO-flugvallarins,“ sagði í yfirlýsingu DHL.