Ofátið reyndist ekki nóg til að forðast herinn

Maðurinn borðaði mat sem innihélt mikið magn kolvetna. Mynd úr …
Maðurinn borðaði mat sem innihélt mikið magn kolvetna. Mynd úr safni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Suðurkóreskur karlmaður sem reyndi að komast undan herskyldu með ofáti mun nú þurfa að ganga aftur í herinn til að forðast fangelsisvist.

Maðurinn, sem hefur ekki verið nafngreindur, var dæmdur í eins árs skilorðsbundið fangelsi fyrir að brjóta gegn herþjónustulögum landsins. Þá hefur vinur mannsins verið dæmdur í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir hvetja hann til að taka upp á þessum „róttæku“ matarvenjum.

CNN greinir frá.

Tvöfaldaði skammtastærðina

Í dómsúrskurði kemur fram að maðurinn hafi staðist þrekpróf fyrir sjö árum áður en hann gekk í herinn. Í júní á síðasta ári vó hann orðið 102 kg eftir mikið ofát. Leiddi uppátækið til þess að hann glímdi orðið við offitu samkvæmt BMI-stuðlinum.

„Sakborningurinn neytti matvæla sem innihéldu hátt hlutfall kolvetna, tvöfaldaði skammtastærðirnar, kom sér hjá líkamlega erfiðri vinnu á borð við afhendingu böggla og drakk mikið vatn rétt áður en hann steig á vigtina sem hann gerði vísvitandi til að mælast þyngri,“ sagði dómarinn við dómsuppkvaðninguna.

Í stað þess að sæta fangelsisvist hefur maðurinn samþykkt að uppfylla herskyldu sína af fullum vilja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert