Fundu bæ og vopnabúr frá 5. öld

Dönsku fornleifafræðingarnir frá Vejle-safninu vinna nú að því að grafa …
Dönsku fornleifafræðingarnir frá Vejle-safninu vinna nú að því að grafa upp heilan bæ frá 5. öld sem um mannsaldra hefur hvílt rétt undir yfirborði jarðar á Jótlandi og síðustu áratugi rétt við hlið fjölfarinnar hraðbrautar. Ljósmynd/Vejlemuseerne

„Þetta er hápunktur ferils míns sem fornleifafræðings,“ skrifar Dorthe Horn Christensen, fornleifafræðingur við Vejlemuseerne, á Instagram-síðu sína í færslu sem hún vísar mbl.is á í stað viðtals um þann stórviðburð er heill bær frá 5. öld eftir Krists burð fannst nýverið í nágrenni bæjarins Hedensted á Austur-Jótlandi.

Frá þessu greindi Morgunblaðið stuttlega á mánudaginn og sagði þá frá því að fornleifafræðingar ynnu að því undir stjórn Elias Witte Thomasen, fornleifafræðings sem einnig starfar við Vejlemuseerne, að grafa bæinn upp en hann fannst við breikkunarframkvæmdir E45-brautarinnar þar sem hún liggur fram hjá Hedenstad.

Hér má sjá starfssvæði fornleifafræðinganna þar sem hver dýrgripurinn á …
Hér má sjá starfssvæði fornleifafræðinganna þar sem hver dýrgripurinn á fætur öðrum hefur komið upp úr moldinni mjúku, meðal annars vel varðveitt hringabrynja, hreinasta dvergasmíð. E45-brautin er í nokkurra metra fjarlægð. Ljósmynd/Vejlemuseerne

Vopn fyrir heilan her

Mesta athygli hefur heilt vopnabúr vakið, 1.600 ára gömul vopn – sverð, spjót, lensur og örvaroddar, auk hringabrynju sem á framleiðslutíma sínum hefur verið rándýr varnarbúnaður. Áætlaði Christensen, í samtali við danska ríkisútvarpið DR, að búnaðurinn hefði nægt til að gera lítinn her gráan fyrir járnum, 80 til 100 manns taldi hún.

Dorthe Horn Christensen er 46 ára gamall fornleifafræðingur og skrifar …
Dorthe Horn Christensen er 46 ára gamall fornleifafræðingur og skrifar hikstalaust á Instagram að hún hafi nú náð hátindi ferils síns sem fornleifafræðings. Kannski hefur hún rétt fyrir sér, kannski ekki. Gríðarlegt magn forngripa hefur fundist í Skandinavíu undanfarin ár eftir að áhugamenn fóru að ganga með málmleitartæki um akra og tún sér til dægradvalar. Í Noregi hafa slíkir áhugamenn fundið ótrúlegustu hluti eins og mbl.is hefur fjallað um síðustu ár. Ljósmynd/Vejlemuseerne

Kveður Christensen, í Instagram-færslu sinni, fundinn ekki vera neitt smáræði. „Þetta eru tæplega hundrað fundir sem telja mun fleiri einstaka gripi,“ skrifar hún og telur upp hluta af vopnabúnaðinum og brynjuna og segir alla gripina gríðarvel varðveitta.

„Þetta er búið að vera svo magnað, ég efast um að ég muni nokkurn tímann upplifað nokkuð í líkingu við þetta. Næturnar hafa verið svefnlitlar og taugarnar titrandi,“ skrifar fornleifafræðingurinn danski og sendir mbl.is texta af heimasíðu Vejlemuseerne þar sem fjallað er um þennan merkilega fund, 1.600 ára gamlan bæ sem hvílt hefur um mannsaldra rétt undir yfirborði jarðar við E45-brautina á Jótlandi.

Hér má sjá hringabrynjuna sem fræðingarnir segja ótrúlega vel varðveitta. …
Hér má sjá hringabrynjuna sem fræðingarnir segja ótrúlega vel varðveitta. Ekki var á færi hvers sem var að kaupa, og hvað þá smíða, slíkan grip á 5. öld. Smíðin krafðist mikillar kunnáttu og aðgangs að efni. Ljósmynd/Vejlemuseerne

Líkjast gripum úr Vindelev-fjársjóðnum

„Auk vopnasafnsins hafa fornleifafræðingarnir fundið hluta af að minnsta kosti tveimur hálshringjum úr bronsi. Líkjast þeir mjög myndum af gullgripum úr Vindelev-fjársjóðnum og fleiri gripum sem mektarmenn járnaldarinnar báru,“ segir þar.

Vindelev-fjársjóðurinn, sem nefndur er í textanum, fannst í desember 2020 í Vindelev, sem er um það bil miðja vegu milli Billund, Vejle og Horsens á Jótlandi, og var þar um að ræða mikið magn gulls, 795 grömm í þrettán gripum, þar á meðal gullmen með áletrun sem er sú elsta sem þekkist þar sem sjálfur Óðinn er nefndur á nafn. Uppruni fjögurra hinna þrettán gripa reyndist við rannsóknir vera Rómaveldi hið forna annars vegar og hins vegar svæði þar sem Pólland er nú.

Einn gullgripanna úr hinum stórmerkilega Vindelev-fjársjóði sem fannst skammt frá …
Einn gullgripanna úr hinum stórmerkilega Vindelev-fjársjóði sem fannst skammt frá Vejle í desember 2020. Innihélt hann 795 grömm af gulli og elstu áletrun sem vitað er um þar sem Óðinn er nefndur á nafn. Þar var áhugamaður með málmleitartæki á ferð. Ljósmynd/Vejlemuseerne

Í texta Vejle-safnsins um gripina sem nú hafa fundist er þess enn fremur getið að mikillar kunnáttu hafi verið þörf til að smíða hringabrynju, vinna við slíka smíði hafi verið gríðarleg og smiðurinn þurft að hafa aðgang að miklu efni og búnaði.

„Það hafa þess vegna einungis verið hinir æðstu hershöfðingjar samfélagsins sem átt hafa svo dýran útbúnað,“ segir í texta safnsins.

Hér má sjá brot úr svokölluðum eiðshringjum sem finna mátti …
Hér má sjá brot úr svokölluðum eiðshringjum sem finna mátti til dæmis í íslenskum hofum í heiðni og segir af í fornsögum. Voru hringar þessir vættir blóði fórnardýra og báru goðar gripi þessa sem enn fremur voru notaðir til að sverja eið, svokallaðan baugeið. Ljósmynd/Vejlemuseerne
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert