Meiri viðbúnaður í kringum kínverska skipið

Eitt af skipum danska sjóhersins lónar nærri kínverska skipinu Yi …
Eitt af skipum danska sjóhersins lónar nærri kínverska skipinu Yi Peng 3. AFP

Þýskum og dönskum sjóförum hefur fjölgað í kringum kínverska skipið Yi Peng 3, það sem af er morgni, þar sem það liggur enn við akkeri í Kattegat.

Á opinberum kortagögnum má sjá að í kringum skipið í morgun hafa lónað tvö dönsk herskip, þar á meðal HDMS Hvidbjørnen, og þýska strandgæsluskipið Bad Düben.

Auk þeirra hafa að því er virðist þrír RIB-bátar verið settir út, einn frá Hvítabirninum og tveir frá Bad Düben.

Þýsk herskip norður af Sjálandi

Skammt frá, nokkru austar og nær Svíþjóð, hefur sænska strandgæslan beðið átekta um borð í eigin skipi eins og síðustu daga. Að vísu siglir skipið nú í burtu frá vettvangi.

Þá siglir danski hafnsögubáturinn Styrbjørn nú að kínverska skipinu.

Enn sunnar, við norðurströnd Sjálands, eru tvö þýsk herskip.

Grunuð um rof tveggja sæstrengja

Eins og greint hefur verið frá er áhöfn Yi Peng 3 grunuð um að hafa rofið tvo sæstrengi í Eystrasalti snemma í síðustu viku.

Stjórn­völd Dan­merk­ur og nokk­urra annarra ríkja hafa verið sögð eiga í áköf­um samn­ingaviðræðum við Kína vegna skipsins, sem nú hefur legið við akk­eri fyr­ir miðju Kattegat í um viku, innan danskrar efnahagslögsögu.

Danski sjó­her­inn hef­ur gætt skips­ins frá því áður en það nam staðar og telja má lík­legt að það hafi varpað akk­er­um fyr­ir til­stuðlan Dana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert