„Nú er nóg komið“

Kínverska skipið Yi Peng 3 liggur enn við akkeri í …
Kínverska skipið Yi Peng 3 liggur enn við akkeri í Kattegat. AFP

Formaður varnarmálanefndar danska þingsins segir að þeir sem rufu sæstrengina á Eystrasalti verði að gjalda fyrir í sömu mynt.

Áhöfn kínverska skipsins Yi Peng 3 er grunuð um spellvirkin, sem talið er að framin hafi verið snemma í síðustu viku.

Á leið sinni út úr Eystrasalti nam skipið staðar og varpaði akkerum í Kattegat, að því er virðist fyrir tilstuðlan Dana, en dönsk og þýsk herskip hafa gætt þess síðan.

Hápólitískt drama

Vart hefur dregið til tíðinda opinberlega á þeirri rúmu viku sem liðin er, en heimildarmenn danska ríkisútvarpsins hafa talað um að hápólitískt drama eigi sér stað að tjaldabaki.

Sænski forsætisráðherrann Ulf Kristersson sagðist á blaðamannafundi í gær vilja skipið yfir í sænska landhelgi, svo komast mætti að því hvað gerðist.

Þá hefur orðið vart við aukinn viðbúnað herskipa og strandgæsluskipa í kringum skipið í morgun, eins og mbl.is greindi frá.

Dönsk og þýsk herskip hafa gætt kínverska flutningaskipsins undanfarna viku.
Dönsk og þýsk herskip hafa gætt kínverska flutningaskipsins undanfarna viku. AFP

Gjalda verður í sömu mynt

Rasmus Jarlov, formaður varnarmálanefndarinnar og þingmaður Íhaldsflokksins, virðist hafa fengið nóg.

Skrifar hann á miðilinn Bluesky:

„Ef maður siglir 400 kílómetra í gegnum Eystrasaltið með akkerið í eftirdragi til að eyðileggja alþjóðlega netstrengi, þá á maður ekki að komast út úr Eystrasaltinu óáreittur. Nú er nóg komið. Gjalda verður í sömu mynt. Við fáum engan frið ef við sættum okkur bara við þetta.“

Stöðvuðu ekki för skipsins í fyrra

Málið er samt þeim vandkvæðum bundið að þó skipið sé innan danskrar efnahagslögsögu þá er skipið enn á alþjóðlegu hafsvæði og siglir undir kínverskum fána.

Samkvæmt alþjóðahafrétti má því ekki aðhafast neitt við skipið án leyfis Kína eða kínverska skipaflutningafyrirtækisins, þó líklegt megi telja eins og áður sagði að Danir hafi skipað áhöfninni að nema staðar.

Í umfjöllun danska dagblaðsins Berlingske hafa verið rifjuð upp ummæli finnska varnarmálaráðherrans, og annarra, um að yfirvöld þar hafi túlkað hafréttarsáttmála of þröngt og því ekki stöðvað för annars kínversks skips, sem rauf tvo sæstrengi og gasleiðslu í Kirjálabotni síðasta haust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert