Unglingsstúlka lést af völdum tramadóls

Stúlkan sem lést af völdum tramadóls í Svíþjóð í fyrra …
Stúlkan sem lést af völdum tramadóls í Svíþjóð í fyrra var aðeins fjórtán ára gömul en 366 manns létu lífið af völdum þessa sterka ópíóðaefnis árin 2018 til '23. Skjáskot/Heimildarmynd SVT

Aðalmeðferð í máli átján ára gamals manns hófst í dag fyrir Héraðsdómi Falun í Svíþjóð, um 60.000 íbúa bæjar í Dölunum, 225 kílómetra norðvestur af höfuðborginni Stokkhólmi.

Er honum gefið að sök að hafa selt tveimur fjórtán ára gömlum stúlkum töflur með ópíóðaverkjalyfinu tramadól í febrúar fyrir tæplega tveimur árum, þegar hann var aðeins sextán ára gamall sjálfur, en afleiðingarnar urðu þær að önnur stúlknanna lagðist til svefns og vaknaði ekki aftur.

Er seljandanum gefið að sök að hafa orðið valdur að bana annarrar manneskju auk þess sem hann er grunaður um fíkniefnabrot. Ungur aldur hans, er brotið var framið, hefur áhrif á rekstur málsins og hugsanlega refsingu, eftir því sem réttargæslumaður fjölskyldu hinnar látnu, Anders Ericson, greinir sænska ríkisútvarpinu SVT frá, en ákærði neitar sök í málinu.

Á fjórða hundrað andlát á sex árum

Stúlkan sem lifði af, „Clara“ eins og hún er kölluð í heimildarstuttmynd SVT um atburðinn, kvað þær vinkonurnar aðeins hafa ætlað að „prófa nokkrum sinnum“, það gæti varla skaðað. Með aðstoð farsímagagna, gagna frá lögreglurannsókn og framburði vitna og kunnugra kortleggur ríkisútvarpið síðustu klukkustundirnar í lífi stúlkunnar sem lést auk þess að setja fram ýmsar tölfræðilegar upplýsingar um dauðsföll af völdum tramadóls í landinu síðustu ár.

Kemur þar fram að í fyrra hafi 62 látist vegna eitrunar af völdum lyfsins sem er mesti fjöldi sem látist hefur af þeim völdum í fimm ár, eftir því réttarmeinafræðistofnun landsins greinir frá. Alls létust 366 manns í Svíþjóð af völdum tramadóls árabilið 2018 og þar til í fyrra að báðum árum meðtöldum.

Töflurnar sem lögregla lagði hald á í fórum ákærða í …
Töflurnar sem lögregla lagði hald á í fórum ákærða í málinu sem var sextán ára gamall er hann er grunaður um að hafa selt stúlkunum lyfið sem varð annarri þeirra að fjörtjóni. Skjáskot/Heimildarmynd SVT

Líkurnar á andláti stóraukast sé tramadóls neytt samhliða áfengi, kannabisefnum eða öðrum fíkniefnum segir í upplýsingum sem SVT tekur saman auk þess sem þar kemur fram að lyfið sé róandi, en geti í fyrstu virkað örvandi á suma neytendur áður en það slævir þá. Þá hafi tramadól kvíðastillandi verkun á suma neytendur.

Í stórum skömmtum geti efnið leitt til öndunarbælingar, höfuðverkja og hjartastopps og geti sumir neytendur reynst mun viðkvæmari fyrir áhrifum þess en aðrir.

SVT

SVT-II (sakaferill grunaða)

SVT-III (réttargæslulögmaðurinn ræðir við SVT)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert