Diddy ekki laus gegn tryggingu

Diddy verður ekki leystur úr haldi gegn tryggingu.
Diddy verður ekki leystur úr haldi gegn tryggingu. AFP/Angela Weiss

Dómari í máli rapparans Diddy hafnaði nú fyrr í kvöld beiðni hans um að hann yrði látinn laus gegn tryggingu, en þetta var í þriðja sinn sem rapparinn og lögfræðingar hans setja fram ósk þess efnis. 

Diddy, sem heitir réttu nafni Sean Combs, er m.a. grunaður um mansal í kynferðislegum tilgangi og að hafa neytt fólk til kynferðisathafna í svallveislum, auk þess sem hann er grunaður um margvíslegt fjármálamisferli í tengslum við kynferðisbrot sín.

Saksóknarar í málinu sögðu fyrir rétti þegar úrskurðað var um tryggingargjaldsbeiðnina að Diddy hefði reynt að setja sig í samband við möguleg vitni í málinu í gegnum óheimil spjallforrit, jafnvel þó hann væri á bak við lás og slá. 

Taldi dómari málsins það vera næga ástæðu til þess að hafna beiðni rapparans, þar sem ekki væri hægt að setja nein skilyrði fyrir tryggingunni sem gætu tryggt almannaöryggi að mati dómarans. 

Þá náði Diddy ekki að sýna fram á að hann þyrfti að vera laus úr haldi til að geta undirbúið málsvörn sína. 

Réttarhöld í máli Diddys munu hefjast 5. maí 2025, en hann hefur lýst sig saklausan af öllum sakargiftum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert