Stefán Gunnar Sveinsson
Vladimír Pútín Rússlandsforseti hótaði því í gær að Rússar gætu ráðist á helstu stjórnarbyggingar í Kænugarði með hinni nýju ofurhljóðfráu eldflaug sinni, Oreshnik, sem beitt var á borgina Dnípró í síðustu viku.
Rússar gerðu í fyrrinótt eina af stærstu loftárásum sínum á Úkraínu frá upphafi stríðsins, og glímdi um milljón manns í vesturhéruðum landsins við rafmagnsleysi að henni lokinni.
Stjórnvöld í Úkraínu sögðu að Rússar hefðu skotið 90 eldflaugum og sent hundrað sjálfseyðingardróna til árása á landið í gær, og beindist árásin að raforkukerfi landsins. Náði árásin að valda skaða í fjórtán af héruðum landsins, og var rúmlega hálf milljón manna án rafmagns í Lvív-héraði í vesturhluta landsins í gær.
Pútín sagði að árásin hefði verið í hefndarskyni fyrir eldflaugaárásir Úkraínumanna á Rússland, þar sem langdrægum vestrænum eldflaugum hefur verið beitt til árásanna. „Við útilokum ekki notkun Oreshnik-flaugarinnar gegn hernum, hernaðarframleiðslu eða helstu miðstöðvum ákvarðanatöku, þar á meðal í Kænugarði,“ sagði Pútín á blaðamannafundi í Astana, höfuðborg Kasakstans, í gær.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag