Hafa náð flugvellinum og tugum bæja á sitt vald

Sýrlenskir uppreisnarhermenn í gær.
Sýrlenskir uppreisnarhermenn í gær. AFP/Muhammad Haj Kadour

Sýrlenskir uppreisnarmenn hafa náð flugvelli Aleppo á sitt vald og tugum nærliggjandi bæja.

Sýrlenska mannréttindavaktin (Syri­an Observatory for Hum­an Rights) greinir frá þessu en uppreisnarmennirnir hafa náð meirihluta borgarinnar á sitt vald. 

Rússar efndu í gær til fyrstu loftárása sinna á Aleppo frá árinu 2016.

Uppreisnarmennirnir berjast gegn stjórn Bashar al-Assad Sýrlandsforseta, sem nýtur stuðnings stjórnvalda Írans og Rússlands.

Aleppo.
Aleppo. AFP/Aaref Watad

Sókn uppreisnarmannanna hófst á miðvikudag, sama dag og viðkvæmt vopnahlé tók gildi í nágrannaríkinu Líbanon á milli Ísraels og Hisbollah-samtakanna sem einnig eru studd af klerkastjórninni í Íran.

Yfir 300 hafa fallið 

Að minnsta kosti 327 manns hafa fallið í átökunum, þar af 44 almennir borgarar, að sögn Sýrlensku mannréttindavaktarinnar. Hún sagði einnig frá því að stjórnarherinn hefði dregið sig til baka frá fjórðu stærstu borg Sýrlands, Hama, sem er um 140 kílómetrum suður af Aleppo, vegna sóknar uppreisnarmanna.

Heimildarmaður innan hersins vísaði því aftur á móti á bug í ríkisfjölmiðli að herinn hefði dregið sig til baka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert