Ísraelski herinn hefur skipað íbúum að rýma ákveðin svæði á suðurhluta Gasastrandarinnar.
Er þetta í fyrsta skipti í margar vikur þar sem ísraelski herinn beinir spjótum sínum að suðurhluta strandarinnar en síðan í október hafa átökin verið á norðurhlutanum.
„Hryðjuverkasamtök eru enn eina ferðina að skjóta eldflaugum á Ísrael frá ykkar svæðum,“ skrifaði talsmaður ísraelska hersins, Avichay Adraee, á X, þar sem hann beindi skilaboðum sínum til íbúa borgarinnar Khan Yunis.
„Fyrir ykkar eigið öryggi þá verðið þið að rýma svæðið strax og færa ykkur til mannúðarsvæðisins.“
Snemma í dag sagði ísraelski herinn í yfirlýsingu að einni eldflaug hefði verið skotið frá Khan Yunis en að tekist hafi að stöðva hana.
Hryðjuverkasamtökin Hamas gengust stuttu síðar við árásinni og sögðust hafa skotið eldflaugum sem beindust að Suður-Ísrael.