Fréttir af heróínfundi í læstum skáp í Háskólanum í Ósló, OsloMet eins og hann kallast nú orðið, fóru með himinskautum um norska fjölmiðla á föstudaginn þegar lögregla borgarinnar greindi frá því – tæpum tveimur árum eftir fund efnisins.
Það var í febrúar í fyrra sem lögreglan gekk til eftirlits í stofnuninni með fíkniefnahund sér til fulltingis. Við skáp, sem 23 ára gamall maður hafði til umráða – þó ekki nemandi við skólann – gaf dýrið til kynna að efni leyndust í hirslunni.
Ekki brást þefnæmið þar sem lögregla fann í skápnum 997,3 grömm, kílógramm nánast, af heróíni, þeirri ávanabindandi afurð ópíumvalmúans draumsóleyjar (lat. Papaver somniferum) sem gerði Ósló nánast að heróínhöfuðborg Evrópu á áttunda og níunda áratug síðustu aldar þegar albanskir innflytjendur tóku að smygla því í stórum stíl til Noregs og skópu kynslóð heróínfíkla í landi sem fram til þess hafði varla þekkt önnur fíkniefni en hass.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.