Þrír ákærðir fyrir að skipuleggja hryðjuverk í Svíþjóð

Mennirnir voru handteknir í aðgerðum lögreglunnar í mars og apríl …
Mennirnir voru handteknir í aðgerðum lögreglunnar í mars og apríl á þessu ári. Myndin er úr safni. Ljósmynd/Colourbox

Saksóknarar í Svíþjóð hafa ákært þrjá einstaklinga fyrir að skipuleggja hryðjuverk, sem m.a. áttu að beinast gegn gyðingum. Einnig eru þeir ákærðir fyrir að reyna að fá ungmenni undir lögaldri til að framkvæma ódæðin.

Þremenningarnir, auk fjórða mannsins sem liggur einnig undir grun, eru einnig ákærðir fyrir að tengjast Ríki íslams, sem Svíar skilgreina sem hryðjuverkasamtök. Þeir eru jafnframt ákærðir fyrir vopnalagabrot.

Á meðal fjórmenninganna eru tveir bræður sem eru 25 og 23 ára gamlir. Þeir snerust til íslamstrúar skömmu áður en þeir voru handsamaðir.

Ætluðu að myrða marga

Elsti maðurinn hlaut þau fyrirmæli frá liðsmönnum Ríkis íslams í Sómalíu að „myrða eins marga trúleysingja og mögulegt væri, þar sem gyðingar væru aðalskotmörkin,“ að því er segir í ákærunni.

Sænska leyniþjónustan Sapo hleraði samtöl mannanna og bræðurnir heyrðust m.a. tala um að fá ungmenni til liðs við sig sem væru reiðubúin til að deyja sem píslarvottar og myndu ná að drepa marga.

Markmiðið að miklum skaða

Þeir töluðu einnig um að ráðast á ríkisstofnanir, lögreglu, leyniþjónustu og bænahús gyðinga. Markmiðið væri að valda bæði yfirvöldum og samfélaginu miklum skaða.

Sapu segir að málið tengist einnig skipulögðum glæpasamtökum í úthverfi Stokkhólms sem nefnist Tyreso. Þau gátu útvegað mönnunum skotvopn og rafbyssur.

Neita allir sök

Saksóknararnir segja að mennirnir tengist aðallega sveitum Ríkis íslams í Sómalíu, en einnig er verið að skoða tengsl mannanna við aðra einstaklinga sem eru grunaðir um hryðjuverk í öðrum löndum.

Þá segir embættið að fjórmenningarnir hafi haft ólíkum hlutverkum að gegna, en allir tengust íslömskum menningarsamtökum í Tyreso. 

Þeir voru handteknir í aðgerðum lögreglu í mars og apríl á þessu ári að sögn talsmanna Sapo. 

Mennirnir neita allri sök. 

Fimmti maðurinn, sem var einnig um tíma í haldi, var sleppt í október og telst ekki lengur á meðal grunaðra. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka