Áfrýjun fasteignajöfurs í Víetnam gegn dauðadómi bar ekki árangur í morgun. Truong My Lan getur þó enn komist hjá dauðadómi ef hún greiðir til baka þrjá fjórðuhluta af því fé sem hún sveik út.
Truong My Lan, 68 ára, var fundin sek fyrr á þessu ári um að svíkja 27 milljarða bandaríkjadala út úr Verslunarbanka Saígon. Í framhaldinu var hún dæmd til dauða.
Hún áfrýjaði dóminum en í morgun ákvað dómstóllinn í borginni Ho Chi Minh að það væri „enginn grundvöllur“ fyrir því að milda dauðadóminn.
Aftur á móti fær hún tækifæri til að komst hjá refsingunni með því skila þremur fjórðuhlutum af því sem hún sveik út og hlýtur hún þá lífstíðardóm.