Níu eru látnir í Líbanon eftir loftárásir ísraelska hersins í gær. Ekki er langt síðan vopnahlé var samþykkt á milli Hisbollah-samtakanna, sem staðsett eru í landinu, og Ísraels.
Að sögn heilbrigðisráðuneytisins í landinu fórust fimm manns í árás ísraelska hersins á líbanska þorpið Haris og síðar fórust fjórir í annarri árás þar sem ráðist var á þorpið Tallousa.
Þrír særðust að auki í árásunum.
Í gær gengust Hisbollah-samtökin við því að hafa skotið tveimur eldflaugum í átt að Norður-Ísrael en að sögn ísraelska hersins lentu flaugarnar á opnu svæði og særðist enginn.
Ekki er liðin vika síðan vopnahlé var samþykkt á milli samtakanna og Ísraels.
Stuttu eftir árás samtakanna í gær hét Ísrael því að hörðum aðgerðum yrði beitt á móti.
„Við hétum því að bregðast við hvers kyns brotum á vopnahléinu frá Hisbollah og það er það nákvæmlega sem við munum gera,“ skrifaði varnarmálaráðherra Ísraels, Israel Katz, á miðilinn X skömmu eftir árásina.
Þá sakaði forsætisráðherra landsins, Benjamín Netanjahú, Hisbollah-samtökin um alvarlegt brot á vopnahléi og sagði að Ísraelar myndu svara af krafti.
Örfáum klukkustundum síðar hófu Ísraelar árásir á stöðvar Hisbollah-samtakanna í Líbanon og greindi ísraelski herinn frá því skömmu síðar að skotmörk hefðu náð tugum og að árásir hefðu beinst að liðsmönnum Hisbollah-samtakanna og innviðum þeirra.
Bandaríkin hafa tjáð sig um málið og sagt vopnahléið enn vera í gildi á milli Ísraels og Hisbollah-samtakanna.
Að sögn talsmanns utanríkisráðuneytisins, Matthew Miller, er um að ræða hugsanleg brot á vopnahlé og verða þau nú rannsökuð nánar.
Þá segir Miller að þegar því er lokið verði haft samband við þá sem tengjast málinu og reynt að koma í veg fyrir að brotin endurtaki sig.