„Þetta er mjög alvarlegt mál. Grunur um samkomulag um frelsissviptingu er það og lögreglan setur mikinn viðbúnað í rannsóknina,“ segir John R. Sødahl Furunes, ákæruvaldsfulltrúi lögreglunnar í Þrændalögum í Noregi, við fréttastofuna NTB.
Snýst málið um tvo rússneska ríkisborgara frá Tjétjeníu sem liggja undir grun um að hafa verið fengnir til að ræna konu nokkurri og hefur lögregla krafist fjögurra vikna gæsluvarðhalds yfir báðum er héraðsdómur tekur fyrir í dag.
„Hann neitar sök og mótmælir því að sæta gæsluvarðhaldi,“ segir Kolbjørn Lium, verjandi annars mannanna, en grunur leikur á að það hafi verið ættingjar konunnar sem sömdu um mannránið við grunuðu og hafi málið með heiður fjölskyldunnar að gera, samanber svokölluð heiðursdráp sem nokkur dæmi eru um að framin hafi verið í samfélögum innflytjenda í Noregi,
Voru mennirnir handteknir á laugardaginn í kjölfar þess er annar þeirra hafði farið á heimili konunnar og fundust munir, sem renna stoðum undir grun lögreglu, í bifreið er þeir höfðu til umráða.
Segir Furunes ákæruvaldsfulltúi enn fremur að lögregla geti lítið tjáð sig um málið á þessu stigi vegna rannsóknarhagsmuna. Réttargæslulögmaður konunnar kýs heldur ekki að tjá sig um það.