Hrundu sókn Rússa yfir Oskil-ána

Volódimír Selenskí Úkraínuforseti stillir sér upp á mynd með hermönnum …
Volódimír Selenskí Úkraínuforseti stillir sér upp á mynd með hermönnum sínum í borginni Kúpíansk í september. Hún féll Rússum í hendur skömmu eftir innrásina en Úkraínumenn náðu henni á sitt vald í september 2022. AFP

Úkraínsk stjórnvöld greindu frá því í dag að herir landsins hefðu hrundið tilraun Rússa til að komast yfir Oskil-ána við austurvígstöðvarnar í tilraun þeirra til að ná tveimur þorpum á sitt vald í sókn sinni.

Hafa Rússar nú, er senn eru liðin þrjú ár frá innrás þeirra, lagt aukinn kraft í sóknarspil sitt og náð að leggja undir sig meira land en í nokkrum öðrum mánuði síðan í mars 2022, hefur AFP-fréttastofan eftir bandarísku herfræðistofnuninni US Institute for the Study of War.

Að sögn stjórnvalda í Kænugarði hafa úkraínskir hermenn nú stjórnina á árbakkanum sín megin í kjölfar þess sem tilkynnendur kalla vel heppnaða aðgerð.

Herinn hafi bætt stöðuna

Úkraínskir hermálabloggarar á lýðnetinu hafa undanfarna daga fjallað um tilraunir Rússa til að koma herjum sínum yfir ána í nágrenni við þorpið Novomlynsk í Norðaustur-Karkívhéraði þar sem meðal annars er að finna borgina Kúpíansk þar sem 27.000 manns bjuggu fyrir innrásina og Rússar náðu á vald sitt á fyrstu vikum hennar.

Náðu Úkraínumenn borginni aftur á sitt vald í september 2022 í leiftursókn sem skilaði þeim til baka hlutum Karkív. Í dag greindi úkraínska varnarmálaráðuneytið frá því að úkraínskir hermenn hefðu náð þorpunum Nóvodarívka og Saporisisja í Austur-Dónetsk á sitt vald á nýjan leik.

Sagði ráðuneytið auk þess að herir landsins hafi „bætt stöðu sína“ í Norðaustur-Karkív, þar á meðal í námunda við Kúpíansk en dróna- og stórskotaliðsárásir urðu þremur að bana í Austur-Dónetsk, einhverjum þeirra í borginni Pókrovsk sem verið hefur höfuðskotmark Rússa upp á síðkastið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert