Vladimír Pútín Rússlandsforseti og Masoud Pezeshkian Íransforseti lýstu í gær yfir ótakmörkuðum stuðningi sínum við Bashar al-Assad Sýrlandsforseta og þær aðgerðir sem Sýrlandsstjórn ætlar að gera til þess að endurheimta það landsvæði sem uppreisnarmenn tóku um helgina í norðvesturhluta landsins.
Pútín og Pezeshkian ræddu stöðuna í Sýrlandi símleiðis í gær og sammæltust þar meðal annars um nauðsyn þess að vera í samskiptum við tyrknesk stjórnvöld, en þau hafa staðið við bakið á sumum uppreisnarhópum í Sýrlandi á síðustu árum.
Símtal þeirra kom í kjölfar þess að Assad leitaði eftir stuðningi bandamanna sinna í Rússlandi og Íran á sunnudaginn, eftir að uppreisnarhópurinn Hayat Tahrir al-Sham, HTS, náði Aleppó, næststærstu borg Sýrlands, á sitt vald um helgina.
Rússar hafa gert nokkrar loftárásir á Aleppó og nágrenni til stuðnings stjórnarhernum, og sagði varnarmálaráðuneyti Rússlands í tilkynningu að herinn væri að aðstoða við að halda aftur af „hryðjuverkamönnum“ í Idlib-, Hama-, og Aleppó-héruðum Sýrlands.
Stjórnarher Sýrlands hefur safnað liði í borginni Hama, sem er um 230 kílómetrum sunnan við Aleppó. Uppreisnarmenn skutu eldflaugum á borgina í gær og voru sex óbreyttir borgarar sagðir hafa farist í árásinni.
Vígasveitir í Írak á vegum Írana voru sendar um helgina yfir landamæri Íraks til Sýrlands til þess að aðstoða stjórnarherinn í bardögum við uppreisnarmenn HTS. Óstaðfestar fregnir um helgina hermdu að Bandaríkjaher hefði gert loftárásir á hluta sveitanna þegar þær voru á leiðinni til Sýrlands.
Utanríkisráðherrar Tyrklands og Írans, þeir Hakan Fidan og Abbas Araghchi, funduðu í gær í Ankara höfuðborg Tyrklands og ræddu stöðuna í Sýrlandi. Fidan hafnaði þar því að erlend ríki bæru ábyrgð á sókn uppreisnarmanna, en íranskir fjölmiðlar höfðu haldið því fram að Tyrkir væru á bak við sókn HTS að Aleppó.