Allir þeir 190 þingmenn af 300 sem viðstaddir voru á suður-kóreska þinginu greiddu atkvæði með að fella úr gildi herlög sem forseti landsins, Yoon Suk Yeol, setti fyrr í dag. Ákvað forsetinn að setja á herlög eftir að þingið afgreiddi ekki fjárlög hans þar sem meðal annars var kveðið á um mikinn niðurskurð. Bæði andstæðingar forsetans á þingi sem og hans eigin flokksmenn lögðust gegn ákvörðun hans að setja á herlögin.
Forseti þingsins, Woo Won-sik, lagði fram tillöguna um að fella herlögin úr gildi klukkan 01:00 eftir miðnætti að staðartíma, en það var klukkan 16:00 að íslenskum tíma. Bæði stjórnarþingmenn og stjórnarandstæðingar greiddu atkvæði með tillögunni.
Mikil ringulreið hefur ríkt á þinginu í dag eftir að forsetinn lýsti yfir herlögum í óvæntu sjónvarpsávarpi sem ekki hafði verið auglýst. Sagði hann að ákvörðunin væri nauðsynleg til að verja landið fyrir kommúnistaógn frá Norður-Kóreu og til að verjast öflum sem væri beint gegn ríkinu.
Her landsins stöðvaði starfsemi þingsins eftir ákvörðun forsetans. Girti herinn þinghúsið af og mátti sjá herþyrlur lenda á þaki þingbyggingarinnar. Samkvæmt herlögunum mátti handtaka hvern þann sem framfylgdi ekki herlögum landsins án heimildar. Náðu lögin einnig til fjölmiðla í landinu.
Formaður Lýðræðisflokksins sem situr í stjórnarandstöðu, Lee Jae-myung, sagði ákvörðun Yoon á skjön við stjórnarskrá Suður-Kóreu, en hann boðaði til þingfundarins þar sem tillagan um að fella herlögin úr gildi var samþykkt.
Biðlaði Lee jafnframt til almennings að fjölmenna fyrir framan þinghúsið til að mótmæla aðgerðum Yoon. Stuttu síðar hafði fjölmenni mætt fyrir utan þingbygginguna og gagnrýndi herlögin.