Fékk 25 ára dóm fyrir að aka á brúðhjónin

Slysið átti sér stað í Folly Beach í Suður-Karólínu.
Slysið átti sér stað í Folly Beach í Suður-Karólínu. AFP

Jamie Lee Komoroski var á dögunum dæmd í 25 ára fangelsi fyrir að hafa banað konu í Suður-Karólínuríki í Bandaríkjunum í apríl í fyrra er hún ók undir áhrifum áfengis.

Málið hefur vakið talsverða athygli erlendis fyrir þær sakir að slysið átti sér stað á brúðkaupsnótt konunnar sem lést. 

Játaði sök

Hjónin Samantha Miller og Aric Hutchinson voru saman í golfbíl umrætt kvöld. Þau höfðu gift sig fyrr um daginn og voru enn í brúðkaupsfötunum. Bróðir mannsins var við stýrið á golfbílnum. 

Hutchinson hlaut heilaskaða og beinbrot í slysinu sem átti sér stað í bænum Folly Beach.

Jamie Lee Komoroski játaði sök í málinu en hún keyrði á golfbílinn með þeim afleiðingum að Miller lést. Er talið að Komoroski hafi verið á 104 kílómetra hraða þegar áreksturinn varð en leyfilegur hámarkshraði í götunni var 40 km á klst. 

Man ekki eftir slysinu

Vitnum bar saman um að Komoroski hefði drukkið áfengi á nokkrum börum áður en hún settist undir stýri. Í henni mældist áfengismagn sem er þrisvar sinnum meira en leyfilegt er í ríkinu. 

Ekkillinn Eric Hutchinson segist ekki muna eftir slysinu sjálfur. Hann segist muna eftir því að hafa kysst Samönthu á ennið og hún hafi sagt að hún vonaði að nóttin tæki aldrei enda. Næst man hann eftir sér á sjúkrahúsi. 

Haft er eftir Hutchinson að hann telji refsinguna hæfa glæpnum en hann trúi Komorski þegar hún segist iðrast gjörða sinna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert