Lögreglumaður í nyrsta fylki Noregs, Finnmörk, hefur hlotið 21 dags óskilorðsbundinn fangelsisdóm í Héraðsdómi Vestri-Finnmerkur og verið sviptur starfi sínu fyrir spillingu sönnunargagna í refsimáli.
Fólst spillinginn í því að lögregluþjónninn eyðilagði farsíma sinn sem var sönnunargagn í málinu er rekið var gegn kunningja hans sem grunaður var um ofbeldi gagnvart maka sínum.
Hélt lögregluþjónninn því fram að sími hans hefði eyðilagst er hann lenti í óhappi á vélsleða daginn áður en honum var gert að afhenda lögreglu símann til rannsóknar vegna gagna er í honum kynnu að leynast.
Vegard Hermann Tobiassen saksóknari sýndi hins vegar fram á það með gögnum frá símafyrirtæki að lögregluþjónninn hefði eyðilegt símann sama dag og hann sætti yfirheyrslu í tengslum við meint ofbeldi kunningjans.
Neitaði lögregluþjónninn sök og hélt því fram fyrir rétti að síminn hefði orðið fyrir tjóninu í téðu óhappi. Símakortið hefði hann hins vegar flutt yfir í annan síma er hann hafði handbæran.
Samkvæmt gögnum fjarskiptafyrirtækis mannsins var IMEI-kennitala símans sem hann notaði rétt eftir yfirheyrsluna sú sama og símans sem hafði verið eyðilagður. Daginn eftir kom maðurinn með ónýtan símann á lögreglustöðina og afhenti hann þar.
Síminn hafði þó verið notaður eftir að lögregluþjónninn sagðist hafa orðið fyrir vélsleðaóhappinu, það tókst saksóknara að sýna fram á með gögnum fjarskiptafyrirtækisins, en strax að lokinni yfirheyrslu hringdi lögregluþjónninn í verjanda kunningja síns.
Ekki gat hann skýrt hvernig það mátti hafa gerst þar sem síminn átti samkvæmt framburði hans þá þegar að hafa verið ónothæfur.
Krafðist saksóknari þess að maðurinn yrði sviptur stöðu sinni auk fangelsisrefsingarinnar þrátt fyrir að símtalið til verjandans hafi átt sér stað á frívakt. „Samfélagið verður að geta treyst því að lögreglan fylgi lögum og reglum þótt lögreglumenn séu ekki á vakt,“ sagði hann fyrir rétti.
Verjandi lögreglumannsins mótmælti þessu og rökstuddi með því að sími skjólstæðings hans hefði ekki haft að geyma nokkur þau gögn er þýðingu hefðu í ofbeldismálinu.
Lögreglumaðurinn hafði áður sætt rannsókn vegna nokkurra afbrotamála sem öll voru felld niður áður en rannsókn þeirra lauk. Kvaðst hann af þeim sökum hafa orðið felmtri sleginn er hann var kallaður til yfirheyrslu vegna sakargifta á hendur kunningja sínum og krafinn um síma sinn.