Danska lögreglan fékk inn á borð til sín 35.531 vopn í „friðhelgisátakinu“ sem hún kallar svo og haldið var í nóvembermánuði í lögregluembættum landsins en það gengur út á að almenningur getur nafn- og refsilaust komið á næstu lögreglustöð og skilað af sér vopnum sem hann hefur undir höndum án eftirmála eða spurninga.
Talan í ár er met í friðhelgisátökunum fram til þessa greinir danski ríkislögreglustjórinn frá í fréttatilkynningu en sjö ár eru liðin frá síðasta friðhelgismánuði dönsku lögreglunnar.
„Það gleður okkur ósegjanlega hve margir borgarar hafa tekið þátt í átakinu árið 2024,“ segir Sune Fletcher Hjortel, lögreglufulltrúi hjá ríkislögreglustjóraembættinu, í tilkynningunni.
Segir hann þúsundir vopna nú komnar út úr samfélaginu og þar með ekki hætta á því lengur að þau hafni í röngum höndum en það hafi verið höfuðtilgangur átaksins nú sem endranær.
Lögreglan á Mið- og Vestur-Jótlandi einu saman fékk afhent 6.968 vopn og er það embætti landsins sem flest vopnin fékk í mánuðinum. Bjørn Bo varalögreglustjóri þar kveðst enda hafa búist við því að umfangsmesta umdæmi landsins fengi flest vopnin.
„Nú eru sjö ár síðan átakið var síðast haldið og mér finnst þetta satt að segja gríðarlega góð frammistaða hjá borgurum Mið- og Vestur-Jótlands,“ er haft eftir Bo sem kveður 46 „hreint út sagt viðbjóðslega“ hnífa hafa komið inn sem lögreglan gleðjist mjög yfir að séu komnir til skila.
Segir hann enn fremur að margra grasa hafi kennt í því sem almenningur mætti með á lögreglustöðina, þar á meðal hafi maður nokkur komið með handsprengjur sem hann skildi eftir á borði lögreglustöðvarinnar í Herning sem í kjölfarið var rýmd tafarlaust af öryggisástæðum.
Eftirfarandi var skilað inn á Mið- og Vestur-Jótlandi:
Níu alsjálfvirkum skotvopnum
53 fornvopnum
369 loft-, fjaður-, start- og harðboltabyssum
1.252 eggvopnum
2.600 löngum vopnum, það er rifflum og haglabyssum
2.593 annars konar vopnum, það er skotfærum, handsprengjum, varnarúða og því um líku
Hér má geta þess að hver afhentur skammtur af skotfærum telst ein eining óháð fjölda stykkja eða kílógrammatölu.
Mælir Bo aðstoðarlögreglustjóri með því að fólk skili af sér vopnum jafnóðum sem það kemst yfir þau, hvort sem þau eigi rætur sínar að rekja til dánarbúa eða einhvers annars. Hins vegar geti hann ekki lengur ábyrgst friðhelgina sem fylgdi nóvembermánuði.
Viðbrögð almennings voru það hressileg að nokkuð var enn eftir af nóvembermánuði þegar lögreglu varð ljóst að met yrði sett í fjölda afhentra vopna.