Yoon þarf líklega að taka pokann sinn

Forseti Suður-Kóreu lýsti yfir herlögum í landinu. Voru þau í …
Forseti Suður-Kóreu lýsti yfir herlögum í landinu. Voru þau í gildi í skamman tíma. AFP

Þingmenn í Suður-Kóreu hafa borið fram vantrauststillögu á hendur forseta landsins, sem lýsti yfir herlögum í vikunni sem þingið felldi síðan úr gildi nokkrum tímum síðar. Prófessor í asískum fræðum segir líklegt að forsetinn verði látinn fara.

Í vantrauststillögunni segir að Yoon Suk Yeol, forseti Suður-Kóreu, hafi „brotið gegn stjórnarskránni og lögunum“ og er hann einnig sakaður um að hafa lýst yfir herlögum til þess að komast undan rannsókn á „meintu ólöglegu athæfi er varðar hann og fjölskylduna hans“.

Yfirlýsing Yoons hefur stefnt suðurkóresku þjóðinni í uppnám og vakið varhug meðal bandamanna landsins.

Pólitísk framtíð Yoons, sem hefur verið forseti úr röðum íhaldsmanna frá árinu 2022, er nú í mikilli óvissu en flest bendir til þess að honum verði bolað burt.

Geir Sigurðsson.
Geir Sigurðsson. Mynd/Geir Sigurðsson

Þykir of ögrandi gagnvart Norður-Kóreu og Kína

En staða Yoons var þegar orðin afar þröng að sögn Geirs Sigurðssonar, prófessors í asískum fræðum við Háskóla Íslands.

„Hann nýtur mikilla óvinsælda heima fyrir, bæði vegna efnahagsmála og óðaverðbólgu en svo þykir hann vera of fjandsamlegur og ögrandi gagnvart Norður-Kóreu og Kína,“ segir Geir við mbl.is og bendir á að Suður-Kóreumenn hafi almennt reynt að feta þröngt einstigi milli nágrannaríkja.

Geir segir að Suður-Kóreumenn vilji almennt halda samskiptunum við Kína á jákvæðum nótum.

„En Yoon hvarf af þeirri braut,“ bætir prófessorinn við.

Forsetanum hafi tekist að bæta samskipti Kóreumanna við Japani en væntanlega á kostnað hinna þáttanna.

Geir bendir einnig á að nýlegur skandall sem tengist eiginkonu Yoons hafi einnig haft mikil áhrif á vinsældir forestans. Eiginkona hans gerðist sek um að þiggja dýra Dior-handtösku í gjöf en það þykir alvarlegur glæpur í Suður-Kóreu þar sem fólki í opinberum stöðum er óheimilt að þiggja gjafir frá þeim sem það á í samskiptum við.

„Það er ekki ólíklegt að Yoon verði látinn taka pokann …
„Það er ekki ólíklegt að Yoon verði látinn taka pokann sinn,“ segir Geir í samtali við mbl.is. AFP

Búinn að missa meirihlutann og því er erfitt að verjast vantrausti

Þúsund­ir manna mót­mæltu fyr­ir utan þing­hús Suður-Kór­eu í morg­un og kröfðust af­sagn­ar for­setans.

Í þingkosningunum í apríl tapaði flokkur Yoons illa og er því í miklum minnihluta á þinginu. Þar af leiðandi getur reynst erfitt fyrir forsetann að koma málum sínum í gegn.

„Það kann að hafa leitt til gremjunnar sem fékk hann til að lýsa yfir herlögum með tilvísun til „kommúnista“ og „andlýðræðissinna“ í hópi stjórnarandstöðunnar,“ bendir Geir á. Hann hafi þannig gert því skóna að stjórnarandstæðingarnir væru á bandi Norður-Kóreu og reyndu því að grafa undan stjórnkerfi Suður-Kóreu.

„Það er ekki ólíklegt að Yoon verði látinn taka pokann sinn,“ segir prófessorinn.

Gætu snúist gegn Yoon

Á suðurkóreska þinginu sitja 300 þingmenn en það þarf 2/3 þingsins til að samþykkja ákæru um embættisafglöp. Það gæti vel tekist, að mati Geris, þar sem stjórnarandstaðan er með 193 þingmenn en 200 þurfa að kjósa með tillögunni til að hún verði samþykkt.

„Margir í flokki Yoons hafa snúið við honum baki og gætu vel greitt atkvæði með kærunni,“ segir Geir.

Það þurfa því aðeins sjö þingmenn úr röðum íhaldsmanna að svíkjast undan merkjum til að Yoon missi völdin.

Kim Yong-hyun, varn­ar­málaráðherra Suður-Kór­eu, hefur þegar sagt af sér vegna ringul­reiðar­inn­ar skap­aðist í land­inu eft­ir að Yoon setti á her­lög en þeir tveir eru nán­ir sam­starfs­menn.

Sýnir styrkleika lýðræðisins í Suður-Kóreu

„Þannig að þetta er að mestu heimatilbúið vandamál og skrifast á forseta með dvínandi völd sem reynir að notfæra sér óttann við árásir Norður-Kóreu til að festa völd sín í sessi,“ bendir Geir á og bætir við að lokum:

„Það lýsir styrkleika lýðræðisins í Suður-Kóreu hvað almenningur var fljótur að láta til sín taka strax um nóttina og koma í veg fyrir að herinn gæti tekið völdin. En auðvitað er staðan brothætt í landi - og ekki síst höfuðborginni Seúl - sem lifir í stöðugri ógn af alvarlegri árás rétt hinum megin við landamærin.“

Á umliðnum vikum hefur flokkur Yoons orðið æ óvinsælli, þar sem aðeins 19% landsmanna eru sáttir við hans forystu samkvæmt könnunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert