Breivik fer ekki spönn frá rassi

Breivik meðan á aðalmeðferð málsins stóð í nóvember í íþróttasal …
Breivik meðan á aðalmeðferð málsins stóð í nóvember í íþróttasal Ringerike-fangelsisins þar sem öryggisgæsla var gríðarleg og fjöldi vopnaðra lögregluþjóna á vettvangi. Hann hlaut ekki meðbyr héraðsdóms en hyggst áfrýja. AFP/Beate Ome Dahle

Fjöldamorðinginn Anders Behring Breivik hlaut ekki meðbyr fyrir Héraðsdómi Ringerike, Asker og Bærum í gær eftir að hafa sóst eftir því öðru sinni að verða látinn laus til reynslu. Var það einróma álit fjölskipaðs dóms að synja fjöldamorðingjanum um reynslulausn.

„Sumt í dóminum er jákvætt. Ég hef rætt við Breivik og mér skilst að hann vilji áfrýja,“ segir Øystein Storrvik, lögmaður og verjandi Breiviks frá upphafi vega í máli hans, við norsku fréttastofuna NTB.

Héraðsdómur telur skilyrði fyrir reynslulausn ekki uppfyllt, en í viðtali við Aftenposten segir Storrvik dómarana þó viðurkenna vissa framför hjá manninum sem myrti 77 landa sína 22. júlí 2011 í mestu blóðtöku sem norsk þjóð hefur horft upp á eftir síðari heimsstyrjöldina.

Gæti setið til dauðadags

Við síðustu umsókn Breiviks um reynslulausn fór lögmaðurinn þess á leit við réttinn að skjólstæðingur hans yrði látinn laus með ströngum skilyrðum, á sama hátt og aðrir hættulegir brotamenn sem dæmdir hafa verið til varðveislu, eða forvaring, hafi hlotið frelsi sitt.

Eins og mbl.is hefur fjallað um áður er 21 árs forvaring-dómur Breiviks ekki endilega 21 árs dómur og því síður 21 árs dómur þar sem brotamaður gengur út í frelsið eftir að hafa afplánað tvo þriðju hluta. Forvaring er úrræði sem tekið var upp í norsk hegningarlög þegar lífstíðarfangelsi var numið úr lögum og gerir refsivörslukerfinu kleift að halda hinum brotlega bak við lás og slá til æviloka.

Telji sérfróðir matsmenn fangann ekki hæfan til að sameinast mannlegu samfélagi á ný – svo sem vegna hættu á að hann endurtaki brot sitt – má með einföldu þinghaldi og án nýrrar ákæru framlengja fangavistina í áföngum án nokkurra takmarka. Brotamaðurinn gæti setið inni þar til dauðans óvissi tími vitrast honum.

Í framkvæmd hefur þetta aldrei gerst í Noregi en ekki er talið ólíklegt að Breivik fái að dúsa í fangelsi til dauðadags. Þetta er maðurinn sem norsk þjóð vill gleyma og aldrei sjá á nýjan leik – Vidkun Quisling 21. aldarinnar – bara verri.

Enginn brotið svo alvarlega af sér

Breivik geldur skuld sína við samfélagið á hámarksöryggisgæsludeild Ringerike-fangelsisins en aðeins fáein norsk fangelsi eru vottuð til þess að þar geti fangar er hlotið hafa forvaring-dóm afplánað, þeirra stærst er Ila-fangelsið í Bærum, nágrannasveitarfélagi Óslóar.

Hulda Olsen Karlsdóttir, héraðssaksóknari í Ósló, segir ekki koma til …
Hulda Olsen Karlsdóttir, héraðssaksóknari í Ósló, segir ekki koma til greina af hálfu ákæruvaldsins að Anders Behring Breivik hljóti reynslulausn. „Ákæruvaldið er á einu máli um það að við tökum þetta ekki til greina,“ sagði Hulda við mbl.is í nóvember. Héraðsdómur féllst á sjónarmið hennar í gær, næst reynir á málið fyrir lögmannsrétti þar sem Breivik og lögmaður hans áfrýja að öllum líkindum. Ljósmynd/Aðsend

Hulda Olsen Karlsdóttir héraðssaksóknari, sem ræddi við mbl.is þegar aðalmeðferð málsins var nýlokið í nóvember, gætti hagsmuna ákæruvaldsins og norska ríkisins gagnvart sakamanninum. Krafðist hún þess fyrir hönd embættis síns að dómurinn synjaði Breivik um reynslulausn nú er hann sótti öðru sinni um að fá frelsið, rúmum þrettán árum eftir að hann umturnaði lífi heillar þjóðar sumarið 2011.

„Enginn norskur sakamaður hefur brotið svo alvarlega af sér,“ sagði Hulda fyrir rétti og féllst dómurinn á þau rök hennar auk þess sem ný skýrsla geðlæknis og sálfræðings, um andlegt ástand og hættueiginleika hægriöfgamannsins Breiviks, sem héraðssaksóknarinn úr Hafnarfirði lagði mikla áherslu á við málflutning sinn, hafði sitt að segja.

Ef marka má Storrvik lögmanna áfrýja þeir Breivik málinu að öllum líkindum og mun lögmannsréttur, norska millidómstigið, þá taka mál hans til meðferðar og dómsuppkvaðningar með rísandi sól.

NRK

VG

TV2

Nettavisen

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert