TikTok-bann yfirvofandi í janúar

Fyrirtækið hyggst áfrýja niðurstöðunni til Hæstaréttar.
Fyrirtækið hyggst áfrýja niðurstöðunni til Hæstaréttar. AFP/Sebastien Bozon

Kínverski samfélagsmiðillinn TikTok er skrefi nær því að vera bannaður í Bandaríkjunum eftir að fyrirtækið tapaði kærumáli í dag sem skyldar það til að losa sig við móðurfélag sitt, ByteDance. 

Bandaríska öldungadeildin samþykkti í apríl á þessu ári frumvarp sem þvingar ByteDance til að selja samfélagsmiðilinn á innan við ári, annars munu forritin App store og Google play store ekki veita notendum sínum aðgang að TikTok. 

TikTok og ByteDance kærðu bandarísk stjórnvöld fyrir ákvörðunina en hafa nú tapað því máli.

TikTok ætlar að áfrýja málinu til Hæstaréttar Bandaríkjanna en prófessor í lögfræði við Cornell-háskóla í Bandaríkjunum telur ólíklegt að Hæstiréttur taki málið fyrir og er því líklegt að TikTok heyri sögunni til í Bandaríkjunum á næsta ári. 

Gæti haft áhrif á samskipti Bandaríkjanna og Kína

Bandarískir embættismenn hafa varað við því að TikTok safni of mikið af gögnum um notendur og að kínversk stjórnvöld hafi greiðan aðgang að þeim gögnum. Sumir hafa jafnvel sakað kínversk stjórnvöld um að dreifa áróðri á samfélagsmiðlinum. Kínversk stjórnvöld og eigendur TikTok hafa hafnað þessum ásökunum. 

Samfélagsmiðlabannið gæti sett samskipti Bandaríkjanna og Kína úr skorðum þegar Donald Trump tekur við Hvíta húsinu í janúar. 

Trump líflína miðilsins

Eigendur TikTok binda miklar vonir við Trump en hann hefur bent á að bann við TikTok í Bandaríkjunum myndi aðeins gagnast Meta, eiganda Facebook og Instagram, sem er í eigu Mark Zuckerbergs. 

„Donald Trump gæti verið líflína TikToks þegar hann tekur við embætti, en það er hægara sagt en gert að stöðva framkvæmd bannsins,“ er haft eftir Jasmine Enberg markaðssérfræðing í  samtali við AFP-fréttastofuna. 

Trump stofnaði sinn eigin TikTok-reikning eftir að frumvarpið var samþykkt eða í júnímánuði. Hann er með tæpa 15 milljón fylgjendur en hefur ekki birt neitt myndskeið eftir að hann var kjörinn forseti. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert