Næstum allir þingmenn úr stjórnarflokki Suður-Kóreu gengu út úr þingsalnum í dag til að sniðganga atkvæðagreiðslu um ákæru sem lögð hefur verið fram gegn forseta landsins.
Atkvæðagreiðslan er nú hafin.
Greint hefur verið frá að stjórnarandstaðan í Suður-Kóreu hafi gefið út ákæru á hendur Yoon Suk Yeol forseta Suður-Kóreu fyrir embættisbrot eftir að hann setti á herlög í landinu sem þingið felldi skömmu síðar úr gildi.
Atkvæðagreiðsla um ákæruna fór fram í dag á þinginu í Seúl í dag þar sem allir þingmenn nema þrír úr flokki forsetans, People Power-flokknum, gengu út úr þingsalnum fyrir atkvæðagreiðsluna.
Á meðan höfðu tugþúsundir mótmælenda safnast saman fyrir utan þinghúsið til þess að krefjast þess að forsetinn láti af völdum sínum.
Til þess að ákæran verði samþykkt þurfa 200 þingmenn að samþykkja hana.
Stjórnarandstaðan hefur aðeins 192 sæti á 300 sæta þinginu og mun því sniðganga annarra þingmanna að öllum líkindum valda því að forsetinn verði ekki ákærður.
Uppfært: Í upphaflegri frétt kom fram að allir þingmenn stjórnarflokksins nema einn hefðu sniðgengið atkvæðagreiðsluna en samkvæmt nýjum upplýsingum voru þeir þrír. Hefur fréttin verið leiðrétt samkvæmt því.