Fjölbýlishús hrundi eftir sprengingu

Viðbragðsaðilar að störfum.
Viðbragðsaðilar að störfum. AFP

Þriggja hæða íbúðablokk í Haag í Hollandi hrundi að hluta til í morgun eftir eld og sprengingu. Viðbragðsaðilar eru að störfum og hefur nokkrum verið bjargað úr húsinu en ekki er vitað hversu margra er saknað.

Ekki er vitað hvað olli sprengingunni í íbúðablokkinni sem er skammt frá miðbænum. Á tveimur efri hæðunum í húsinu eru íbúðir en verslanir á fyrstu hæðinni.

„Við vitum enn ekki hversu margir gætu verið undir rústunum,“ sagði lögreglumaður á staðnum við AFP-fréttaveituna en fjöldi slökkviliðsmanna hafa barist við eld í byggingunni. Ljóst er að nokkrar íbúðir eru mikið skemmdar.

Hollenskir miðlar segja að fjórum hafi verið bjargað úr rústum byggingarinnar og voru þeir fluttir á sjúkrahús en sjúkrahús á svæðinu eru í viðbragðsstöðu til að sinna fórnarlömbum.

Í blokkinni búa aðallega eldra fólk og barnafjölskyldur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert