Forsetinn ekki ákærður fyrir embættisbrot

Tugþúsundir mótmæla í Seúl og kalla eftir afsögn forsetans.
Tugþúsundir mótmæla í Seúl og kalla eftir afsögn forsetans. AFP

Forseti Suður-Kóreu, Yoon Suk Yeol, verður ekki ákærður fyrir embættisbrot en atkvæðagreiðslu um ákæruna á suðurkóreska þinginu er nú lokið.

Greint hefur verið frá að stjórnarandstaðan í Suður-Kóreu hafi gefið út ákæru á hendur forsetans fyrir embættisbrot eftir að hann setti á herlög í landinu sem þingið felldi skömmu síðar úr gildi.

Atkvæðagreiðsla hófst fyrr í dag en þar sniðgengu allir nema þrír þingmenn stjórnarflokksins Power People-flokknum atkvæðagreiðsluna við mikil mótmæli stjórnarandstöðunnar og mannfjöldans utan þinghússins.

Til þess að ákæran yrði samþykkt þurftu 2/3 þingmanna, eða 200 þingmenn alls, að samþykkja hana í atkvæðagreiðslunni.

Hins vegar voru aðeins greidd 195 atkvæði í dag eftir að langflestir þingmenn stjórnarflokksins yfirgáfu salinn.

Forsetinn baðst afsökunar

Forsetinn ávarpaði þjóð sína fyrir atkvæðagreiðsluna í dag þar sem hann baðst afsökunar á þeim glundroða sem ríkt hefur í landinu síðan á þriðjudag þegar hann setti herlögin á.

Hann tók þó fram að hann myndi leyfa flokknum sínum að ráða örlögum sínum hvað málið varðaði.

„Ég hef valdið almenningi kvíða og óþægindum. Ég biðst innilegrar afsökunar,“ sagði forsetinn í ávarpi sínu sem var sjónvarpað og var jafnframt í fyrsta sinn sem hann kom opinberlega fram í þrjá daga.

Þá sagði hann að hann myndi nú fela flokki sínum það verkefni að koma stöðugleika á pólitískt ástand landsins, þar á meðal með því að taka ákvörðun um hvort kjörtímabil hans haldi áfram. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert