Mohammed al-Rahmoun, innanríkisráðherra Sýrlands, segir yfirvöld hafa komið upp öflugum vörnum umhverfis höfuðborgina Damaskus. Sýrlenskir uppreisnarmenn nálgast borgina.
„Það er mjög sterk öryggis- og hernaðargirðing á jaðri Damaskus og sveitahéraða og enginn... getur komist inn fyrir þessa varnarlínu sem við, herinn, erum að byggja,“ kom fram í viðtali al-Rahmoun við ríkissjónvarpið í Damaskus.
Þá hafnar skrifstofa forsetaembættisins orðrómi um að Bashar al-Assad, forseti Sýrlands, hefði flúið höfuðborgina eftir að fregnir bárust um að uppreisnarmennirnir nálguðust borgina.
Í dag var greint frá því að uppreisnarmennirnir hefðu ráðist inn í úthverfi Homs sem er þriðja stærsta borg landsins. Að auki hafa þeir náð Aleppo á sitt vald.