Hvað segja þjóðirnar við uppreisninni?

Rifinn mynd af Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, í borginni Qamishli.
Rifinn mynd af Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, í borginni Qamishli. AFP

Alþjóðasamfélagið hefur brugðist við yfirtöku uppreisnarhópsins Hayat Tahrir al-Sham, eða HTS, á borginni Damaskus og því að forseti landsins, Bashar al-Assad, hafi flúið land.

Greint hef­ur verið frá að sýr­lensk­ir upp­reisn­ar­menn, hóp­ur­inn Hayat Tahrir al-Sham (HTS), hafi náð völd­um í höfuðborg­inni Dam­askus.

Kalla eftir friðsamlegum valdaskiptum

Frakkar hafa fagnað brottrekstri Assads og hvetja Sýrlendinga til að hafna öllum gerðum af öfgastefnu.

Gagnrýnir utanríkisráðuneytið stjórnartíð Assads harðlega og segir sýrlensku þjóðina vera þjáða fyrir vikið en nú sé hins vegar tími sameiningar kominn upp.

Þá kallaði Frakkland eftir friðsamlegum valdaskiptum.

„Landið má nú ekki falla í hendur annarra öfgamanna,“ segir Annalena Baerbock utanríkisráðherra Þýskalands. Hún kallaði eftir því að þjóðernis- og minnihlutahópar á borð við kúrda, alavíta og kristna yrðu verndaðir.

Forsetinn hafi sagt af sér

Í tilkynningu frá utanríkisráðuneyti Rússlands segir að Assad Sýrlandsforseti hafi sagt af sér forsetaembætti sínu áður en hann yfirgaf landið og gefið fyrirmæli um að halda ætti áfram með friðsamleg valdaskipti. 

Á sú ákvörðun að hafa verið tekin eftir viðræður við aðila í átökunum en segir í tilkynningunni að Rússland hafi ekki tekið þátt í þeim viðræðum.

Íranskir diplómatar komust burt í tæka tíð

Íranska utanríkisráðuneytið hefur kallað eftir pólitískum samræðum á milli sýrlensku stjórnarinnar og stjórnarandstæðinga en eins og greint hefur verið frá er Íran eitt þeirra landa sem studdu sýrlensku stjórnina og Assad Sýrlandsforseta.

Stuttu eftir yfirlýsingu Írans var ráðist á íranska sendiráðið í Sýrlandi en íranskir diplómatar náðu að yfirgefa ráðið í tæka tíð.

Sýrlendingar hvattir til að vinna saman

Tyrkneski utanríkisráðherrann, Hakan Fidan, segir að hrun stjórnartíðar Assads hafi ekki verið skyndilegt heldur verið afleiðing borgarastyrjaldar og að ringulreið hafi ríkt í landinu síðustu 13 ár.

Forsetaráðgjafinn Anwar Gargash hjá Sameinuðu arabísku furstadæmunum hefur hvatt Sýrlendinga til að vinna saman og koma í veg fyrir að óreiðuástand myndist.

Um sé að ræða vatnaskil

Angela Rayner, aðstoðarforsætisráðherra Bretlands, segir að Assad Sýrlandsforseti hafi ekki beint verið góður við sýrlensku þjóðina en að þörf sé á stöðugleika.

„Einræði og hryðjuverk skapa vandamál fyrir íbúa Sýrlands, sem hafa þegar staðið frammi fyrir svo miklu,“ segir Rayner.

„Þess vegna verðum við að hafa pólitíska lausn þar sem ríkisstjórnin starfar í þágu sýrlensku þjóðarinnar.“

Þá hafa Sameinuðu þjóðirnar sagt að um sé að ræða vatnaskil í landinu og að nú sé horft fram á veginn á nýjan kafla sem innihaldi frið, sátt og inngildingu fyrir alla Sýrlendinga.

Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseti, hefur tjáð sig þar sem hann sagði Assad Sýrlandsforseta hafa flúið eftir að hafa misst stuðning Rússlands og þá fylgist Kína náið með þróun mála.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert