Utanríkisráðuneyti Kína vonast til þess að stöðugleiki komist á í Sýrlandi eins fljótt og auðið er eftir að uppreisnarmenn undir forystu íslamista tilkynntu að þeir hefðu náð höfuðborginni Damaskus á sitt vald og hrakið Bashar al-Assad forseta á flótta.
Í yfirlýsingu frá utanríkisráðuneyti Kína segir að stjórnvöld í landinu fylgist náið með þróun ástandsins í Sýrlandi.
„Kínversk stjórnvöld hafa virkjað aðstoð kínverskra borgara sem eru tilbúnir til að yfirgefa Sýrland á öruggan og skipulagðan hátt og hefur sett sig í samband við kínverska ríkisborgara sem eru í Sýrlandi,“ segir í yfirlýsingunni.
Þar segir enn fremur að starfsemi sé enn í gangi í kínverska sendiráðinu í Sýrlandi og að stjórnvöld í Kína muni áfram veita kínverskum ríkisborgurum í neyð fulla aðstoð.
Þótt Rússland og Íran hafi verið nánustu bakhjarlar Sýrlands undanfarin ár hafa tengsl Kína við landið aukist. Kína er eitt af örfáum löndum utan Miðausturlanda sem Assad Sýrlandsforseti hefur heimsótt síðan borgarastyrjöldin í Sýrlandi hófst árið 2011.