Hátt í 200 manns voru myrt í fjöldamorði á Haítí yfir helgina vegna meintrar getu til að stunda vúdugaldra.
Drápin í höfuðborginni Port-au-Prince voru framin að skipun valdamikils glæpaklíkuleiðtoga sem var sannfærður um að veikindi sonar síns væru af völdum fylgismanna trúarinnar, samkvæmt Friðar- og þróunarsamtökunum (CPD).
„Hann ákvað að refsa öllum öldruðum og vúdúiðkendum grimmilega sem gátu, að hans mati, sett á son sinn slæm álög,“ segir í yfirlýsingu CPD.
Antonio Guterres framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna fordæmdi ofbeldið og talsmaður Guterres sagði að að minnsta kosti 184 manns hefðu látið lífið, þar á meðal 127 aldraðir karlar og konur.
Alix Didier Fils-Aime, forsætisráðherra Haítí, hefur fordæmt ofbeldið sem hann segir vera árás á mannkynið.
Íbúar segja í samtali við AFP-fréttaveituna að skósveinar glæpaleiðtogans hafi hundelt gamalt fólk sem var grunað um galdraiðkun, það svo limlest og brennt.
Á Haítí hefur ríkt áratuga óstöðugleiki en ástandið versnaði enn frekar í febrúar þegar vopnaðir hópar gerðu samræmdar árásir á höfuðborgina til að steypa Ariel Henry, þáverandi forsætisráðherra landsins, af stóli.
Glæpagengi ráða nú yfir 80 prósentum borgarinnar. Þrátt fyrir stuðningsverkefni lögreglunnar í Keníu, sem nýtur stuðnings Bandaríkjanna og Sameinuðu þjóðanna, hefur ofbeldið haldið áfram að aukast.