Þýskaland, Austurríki og Bretland hafa ákveðið að fresta eða stöðva umsóknir frá flóttafólki frá Sýrlandi vegna óljósrar stöðu í Sýrlandi eftir að Bashar al-Assad var steypt af stóli eftir að fjölskylda hans hafði stjórnað landinu með harðri hendi í yfir hálfa öld. Kanslari Austurríkis hefur skipað ráðuneyti sínu að undirbúa brottvísun Sýrlendinga aftur til Sýrlands.
Eftir að borgarastríð braust út í Sýrlandi fyrir rúmlega áratug flúði mikill fjöldi Sýrlendinga til Evrópu. Um ein milljón þeirra fór til Þýskalands og um 100 þúsund til Austurríkis. Bíða þúsundir Sýrlendinga þess að umsóknir þeirra um hæli í löndunum tveimur verði afgreiddar.
Innanríkisráðherra Þýskalands segir að endalok valdatíðar einvaldsins Assads séu léttir fyrir mikinn fjölda fólks sem hefur sætt pyndingum, morðum og hryllingi undir hans stjórn. Þá sagði ráðherrann, Nancy Faeser, að margir þeirra sem hafi fundið skjól í Þýskalandi hafi nú loksins von um að geta snúið aftur heim og tekið þátt í uppbyggingu heimalandsins.
Hún tók hins vegar fram að aðstæður í Sýrlandi væru enn mjög óljósar. Sagði hún því að ekki væri hægt að áætla strax um fjölda þeirra sem myndu snúa aftur.
Í ljósi þeirrar óvissu sem er uppi sagði Faeser að ráðuneyti innflytjenda hefði ákveðið að fresta öllum ákvörðunum í málefnum hælisleitenda meðan staðan myndi skýrast betur.
Samkvæmt opinberum tölum í Þýskalandi búa nú 974 þúsund Sýrlendingar í Þýskalandi. Af þeim hafa 5.090 fengið hæli í landinu, rúmlega 321 þúsund fengið stöðu flóttafólks og um 329 þúsund hafa fengið tímabundna vernd. Tugir þúsunda bíða hins vegar þess að mál þeirra verði tekið fyrir.
Í Austurríki tilkynnti kanslarinn Karl Nehammer að ákveðið hefði verið að stöðva allar sýrlenskar umsóknir um hæli í landinu. Þess í stað hefði hann skipað innanríkisráðuneyti landsins að undirbúa brottvísunarferli fyrir Sýrlendinga.
Sérstakar fjölskyldusameiningar hafa einnig verið settar á ís, en þar er átt við að fólk sem þegar hefur fengið hæli í Austurríki geti ekki lengur sótt um að fjölskylda þeirra fái einnig hæli í landinu.
Hafa þessi fyrirmæli áhrif á um 7.300 umsóknir sem höfðu komið inn á borð ráðuneytisins.