Telja að morðinginn hafi flúið til Georgíu

Meginþungi rannsóknarinnar hefur farið fram við Central Park í New …
Meginþungi rannsóknarinnar hefur farið fram við Central Park í New York. AFP

Lögreglumenn sem rannsaka morðið á Brian Thompson, forstjóra United­Healt­hcare, eru komnir til Georgíuríkis í leit að morðingjanum. 

Thompson var skotinn til bana úti á götu á Manhattan í New York í liðinni viku. Árásarmaðurinn, sem var hettuklæddur og með grímu fyrir vitum, náði að forða sér eftir ódæðið. Talið er að hann hafi náð að yfirgefa borgina um borð í rútu. 

Heimildarmenn innan lögreglunnar hafa tjáð bandarísku fréttastofunni CBS að lögreglumenn séu nú á vettvangi í Georgíuríki sem er í suðurhluta landsins. 

Brian Thompson var myrtur við Midtown Hilton-hótelið 4. desember.
Brian Thompson var myrtur við Midtown Hilton-hótelið 4. desember. AFP

Leit staðið yfir í fimm daga - Fundu Monopoly-seðla

Brian Thompson var fimmtugur tveggja barna faðir.
Brian Thompson var fimmtugur tveggja barna faðir. AFP

Leitin hefur nú staðið yfir í fimm daga og hefur lögreglan enn ekki veitt upplýsingar um nafn hins grunaða eða hver voru tildrög árásarinnar. Lögreglan hefur aftur móti birt myndefni úr eftirlitsmyndavélum sem sýnir árásarmanninn grímuklæddan á ferð. 

Fram kemur á vef BBC, að meginþungi rannsóknarinnar hafi farið fram í New York, n.t.t. í og við Central Park, en talið er að morðinginn hafi náð að skapa sér flóttaleið í gegnum almenningsgarðinn. 

Leitað var í stöðuvatni garðsins í gær í annað sinn og þá fannst yfirgefinn bakpoki skammt frá. Í honum var að finna jakka og seðla úr borðspilinu Monopoly. Skotvopn var aftur á móti hvergi sjáanlegt. 

Flúði í gegnum Central Park

Lögreglan telur að árásarmaðurinn hafi hjólað í Central Park skömmu eftir árásina. Hann hafi í kjölfarið tekið leigubíl eftir að hafa yfirgefið garðinn við Upper West Side. 

Um helgina birti lögregla myndir af manninum þar sem hann sat í leigubifreið sem ók í áttina að Port Authority-umferðarmiðstöðina skammt frá Washington Heights.

Engar myndir hafa náðst af manninum yfirgefa umferðarmiðstöðina og því telur lögreglan að hann hafi farið um borð í rútu og þannig náð að sleppa. 

Mynd úr eftirlitsmyndavél sem sýnir hinn meinta morðingja á ferð …
Mynd úr eftirlitsmyndavél sem sýnir hinn meinta morðingja á ferð í borginni. AFP

Besta myndin náðist þegar maðurinn skráði sig á hostel

Hann kom til borgarinnar með rútu tíu dögum fyrir árásina. En vitað er að rútan ók á milli Atlanta í Georgíu og New York. Hann skráði sig svo inn á hostel þar sem hann sýndi afgreiðslumanni andlit sitt í augnablik, og þannig tókst lögreglunni að ná skýrustu myndinni af honum sem hefur hingað til verið birt. 

Þá hefur lögreglan ekki sagt neitt um af hverju Thompson var myrtur. Hann var fimmtugur tveggja barna faðir. Ein getgáta er sú að þetta hafi mögulega verið árás á sjúkratryggingakerfið. Á vettvangi fundust tóm skothylki sem búið var að skrifa orðin "depose," "deny" og "delay", sem útleggja má á íslensku sem víkja frá völdum, neita og tefja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert