Hinn 26 ára gamli Luigi Mangione, sem grunaður er um að hafa orðið Brian Thompson að bana á götum New York-borgar í síðustu viku, hrópaði að fjölmiðlamönnum er hann var færður inn í réttarsal í Pennsylvaníuríki í dag.
Meðal þess sem hann kallaði að fjölmiðlum var orðið „óréttlæti“ og „móðgun við greind Bandaríkjamanna“.
Mangione er ákærður fyrir að myrða Thompson, og hefur einnig verið ákærður fyrir brot á lögum um skotvopn. Auk þeirra er hann ákærður fyrir fjölda brota í Pennsylvaníu, þar á meðal fyrir að vera með fölsuð skilríki á sér.
Í New York-ríki á hann yfir höfði sér tvær ákærur fyrir að bera skotvopn á sér.
Í réttarsalnum í Pennsylvaníuríki í dag mótmælti hann framsalskröfu til New York-ríkis. Hann sætir nú gæsluvarðhaldi og fær ekki tækifæri til að losna gegn tryggingu. Saksóknari segir andmæli Mangione aðeins vera til þess að flækja málin.
Verjendur hans hafa nú tvær vikur til þess að rökstyðja af hverju hann skuli ekki vera framseldur til New York.
Kathy Hochul, ríkisstjóri New York-ríkis, sagði í tilkynningu síðdegis í dag að hún ynni nú hörðum höndum að því að fá Mangione framseldan til ríkisins. Kvaðst hún vera í samskiptum við ríkissaksóknara um framsalið.
Hochul sagði enn fremur að það væri forgangsmál hennar að tryggja öryggi íbúa á götum New York.
Thompson, sem var forstjóri United HealthCare, eins stærsta tryggingafyrirtækis Bandaríkjanna, var skotinn til bana úti á götu í Manhattan í New York. Upphófst mikil leit að banamanni hans og endaði hún í Altoona í Pennsylvaníu í gær þegar starfsmaður McDonald's kom auga á grunsamlegan mann.
Í fórum Mangione fundust þrjár handskrifaðar blaðsíður, eins konar stefnuyfirlýsing, og er sagt að í þeim texta axli Mangione ábyrgð á morðinu á Thompson. Þá er hann sagður hafa skrifað um gremju sína út í heilbrigðiskerfið og tryggingakerfið í Bandaríkjunum.