Í klefa lögreglu dönsku höfuðborgarinnar Kaupmannahafnar situr maður nú í haldi og liggur undir grun um að hafa stutt alþjóðlegan hægriöfgahóp hryðjuverkamanna eftir því sem lögreglan gefur út í fréttatilkynningu.
Lætur hún ekkert uppi um hver öfgahópurinn er sem manninum er brigslað um að hafa veitt stuðning sinn né í hverju meintur stuðningur var fólginn.
Hins vegar greinir lögregla frá því að grunaði, sem í dag var leiddur fyrir héraðsdómara í Glostrup til gæsluvarðhaldsþinghalds, hafi sætt langvarandi rannsókn og eftirliti dönsku öryggislögreglunnar PET.
Eftir því sem danska ríkisútvarpið DR hefur grafið upp við eftirgrennslan sína um mál mannsins er hann á þrítugsaldri og Kaupmannahafnarbúi að uppruna en þar sem þinghald héraðsdóms var lokað hefur ríkisútvarpið ekki greint frá þeim úrskurði er þar féll í dag.
Segir DR það fátítt að hryðjuverka- og hægriöfgatengd sakamál rísi í Danmörku þótt það gerist vissulega og rifjar upp nýlegan sjö ára refsidóm sem Eystri landsréttur kvað upp fyrr á þessu ári í máli átján ára gamals manns sem bundið hafði sitt trúss við nýnasistasamtökin Feuerkrieg Division og gerst þeim handgenginn.
Var maðurinn handtekinn á Vestur-Sjálandi í mars 2022 og hans eigin dagbækur meðal annars notaðar gegn honum sem sönnunargögn fyrir dómi en þar hafði hann meðal annars ritað eftirfarandi: „A new chapter in my life has begun. I have become a nazi. I am white power,“ sem snarast myndi á íslensku sem „Nýr kafli í lífi mínu er hafinn. Ég hef gerst nasisti. Ég er máttur hins hvíta.“
Eins lýsti sakborningurinn því yfir að hann væri reiðubúinn að deyja fyrir málstað nasista og kvaðst vera „hermaður Hitlers“. Eins og svo oft vill verða í áþekkum málum átti maðurinn ævisögu Adolfs Hitlers, Mein Kampf, í fórum sínum og fannst hún við húsleit á heimili hans ásamt nasistafána og armborða með merkjum þjóðernisflokks Hitlers og Þriðja ríkisins.
Téð mál er nú á máladagskrá Hæstaréttar Danmerkur.