Bresk stjórnvöld hafa bannað sjálfstætt starfandi læknum að veita börnum undir 18 ára aldri kynþroskabælandi lyf, en fyrr á árinu ákvað opinbera heilbrigðiskerfið (NHS) að setja bann við að gefa börnum lyfin.
Þetta kemur í kjölfar rannsóknar sem barnalæknirinn Hilary Cass, fyrrverandi forseti félags barnalækna í Bretlandi, var fengin til að gera fyrir NHS vegna mikillar fjölgunar barna sem fundu fyrir kynama á síðustu árum.
Í rannsókninni, sem var birt í apríl, var hvatt til mikillar varúðar áður en börn og ungmenni eru látin fá kynhormónabælandi lyf eða þau látin fara í krosshormónameðferð.
Ríkisstjórn Íhaldsflokksins hafði bannað sjálfstætt starfandi læknum að veita lyfin tímabundið og nú hefur heilbrigðisráðherra í ríkisstjórn Verkamannaflokksins gert bannið varanlegt „í kjölfar ráðlegginga frá heilbrigðissérfræðingum.“
Óbreytt ástand „býr til óviðunandi öryggisáhættu fyrir börn og ungmenni“ sagði Wes Streeting, heilbrigðisráðherra Bretlands.
Áhyggjur hafa aukist af innleiðingu læknisfræðilegra inngripa af þessum toga í ljósi skorts á sönnunargögnum um langtímaáhrif lyfjanna á börn og ungmenni með kynama, samkvæmt fyrrnefndri skýrslu.
Cass benti á það á sínum tíma að hún hefði sætt gagnrýni fyrir að rannsaka málið. Hún sagið að börnum hafi verið brugðist og að þau hefðu orðið í skotlínunni á heitum samfélagslegum umræðum. Sagði hún marga lækna ekki þora að tjá sig um málið vegna eineltishegðunar, sem þyrfti að hætta.
Samkvæmt svörum embættis landlæknis við fyrirspurn mbl.is í mars á þessu ári kom fram að á árunum 2011 til 2022 hafi 55 börn á Íslandi fengið kynhormónabælandi meðferð (hormónablokk) sem gefin eru til að hindra tímabundið kynþroska einstaklings.
Samantekið fyrir árin 2012 til 2023 voru 212 einstaklingar teknir inn í transteymi barna- og unglingageðdeildar Landspítalans, eða um 18 einstaklingar að jafnaði á ári.
Árin 2012 til 2014 voru samanlagt 12 einstaklingar teknir inn í teymið en sú tala hefur verið á milli 20 til 44 á árunum 2018-2023. Ef ársmeðaltölin fyrir árin 2012 til 2014 eru borin saman við árið 2023 þá er þetta 600% aukning. Ef miðað er við árið 2022 er þetta 1.000% aukning.