Frans páfi kallar eftir gagnkvæmri virðingu á milli trúarbragða í Sýrlandi í kjölfar þess að Bashar al-Assad, fyrrverandi forseta landsins, var steypt af stóli af uppreisnarmönnum á sunnudaginn.
„Ég bið að sýrlenska þjóðin megi lifa í friði og öryggi í sínu ástkæra landi og hin ólíku trúarbrögð megi ganga saman í vináttu og gagnkvæmri virðingu fyrir hag þeirrar þjóðar sem þjáðist af svo margra ára stríði,“ sagði Frans í vikulegu ávarpi sínu í Vatíkaninu í dag.
Páfi tók fram að á þessu viðkvæma augnabliki í sögu Sýrlands vonist hann til þess að pólitísk lausn náist án frekari átaka og sundrungar.
Mohammad al-Bashir, nýr bráðabirgðaforsætisráðherra Sýrlands, hefur sagt að kominn sé tími á stöðugleika og ró í landinu.
Assad flúði til Rússlands frá Sýrlandi eftir að uppreisnarmenn náðu höfuðborginni Damaskus á sitt vald á sunnudaginn. Þar með var endi bundinn á fimm áratuga grimmilega valdatíð Assad-fjölskyldunnar.