Úkraínski herinn gerði loftárás á herflugvöll í suðurhluta Rússlands í dag með langdrægum eldflaugum sem koma frá Bandaríkjunum.
Árásinni var beint að herflugvelli í hafnarborginni Taganrog sem er í Rostoy-héraði Rússlands þar sem sex eldflaugum var skotið sem voru af gerðinni Army Tactical Missile System (ATACMS).
Að sögn varnarmálaráðuneytis Rússlands voru tvær eldflauganna skotnar niður af áhöfn rússneska loftvarnarkerfisins en hinum eldflaugunum afstýrt með rafrænum herbúnaði.
Þá kom fram að enginn hefði slasast í árásinni en að örlitlar skemmdir hefðu orðið á ökutækjum og byggingum í grennd við flugvöllinn.
Einnig kom fram í yfirlýsingu ráðuneytisins að árás Úkraínu yrði svarað og að viðeigandi ráðstafanir yrðu gerðar.