Nancy Pelosi, fulltrúadeildarþingmaður demókrata og fyrrverandi forseti fulltrúadeildarinnar, hrasaði niður stiga og datt harkalega í jörðina í Lúxemborg fyrr í dag með þeim afleiðingum að hún mjaðmabrotnaði.
Pelosi var í opinberri heimsókn til þess að minnast þess að 80 ár eru liðin frá bardaganum við Ardennes í Belgíu, The Battle of the Bulge, þar sem 19 þúsund bandarískir hermenn féllu á rúmum mánuði.
„Nancy Pelosi, fyrrverandi forseti fulltrúadeildarinnar, hlaut meiðsli á viðburði og var lögð inn á sjúkrahús fyrir nánari skoðun,“ sagði Ian Krager, talsmaður Pelosi, í yfirlýsingu og bætti við að hún væri að fá frábæra umönnun.
Í yfirlýsingunni var ekki greint frá slysinu en bandarískir fjölmiðlar greina frá því að hún hafi hrasað niður marmaratröppur og fallið harkalega í jörðina með þeim afleiðingum að hún mjaðmabrotnaði.
Bandamenn Pelosi í Kaliforníu og í Washington D.C. sögðu við dagblaðið New York Times að læknar væru þess fullvissir að hægt væri að laga brotið með hefðbundinni aðgerð.