Rúmenar og Búlgarar fá fullan aðgang að Schengen-svæðinu frá og með 1. janúar. Helgast það af því að Austurríkismenn, sem hingað til hafa beitt neitunarvaldi sínu, samþykktu að veita þjóðunum aðgang.
Hafa þar með allir innanríkisráðherrar þjóða Evrópusambandsins samþykkt aðgengi Rúmena og Búlgara að Schengen-svæðinu.
Rúmenía og Búlgaría sóttu um aðild að Schengen-samkomulaginu árið 2010 en mætti andstöðu lykilþjóða á borð við Þýskaland og Frakkland. Sú afstaða hefur hins vegar mildast með tímanum og stóðu Austurríkismenn einir eftir. Samþykktu þeir í síðasta mánuði, síðust þjóða í sambandinu að veita þjóðunum aðild.
Einn fyrirvari er þó á aðild þjóðanna. Þannig munu þjóðir Schengen gefa sér sex mánuði til þess að meta það hvort aðild Rúmeníu og Búlgaríu hafi í för með sér ógn við innanríkismál. Hafa þjóðir sambandsins heimild til þess að framlengja þá fyrirvara sem þessi heimild ber með sér ef þær meta það sem svo að það þurfi.
Þessi fyrirvari hefur samhliða í för með sér að þjóðir sem hafa aðild að samkomulaginu hafa heimild til þess að sinna landamæravörslu gagnvart Búlgörum og Rúmenum sem ferðast til landanna, tímabundið hið minnsta.