François Bayrou, fyrrverandi dómsmálaráðherra Frakklands, gæti orðið næsti forsætisráðherra landsins en Emmanuel Macron, forseti Frakklands, mun í dag tilkynna hver taki við embættinu.
Franska blaðið Le Parisien greinir frá því að Bayrou sé á fundi með Macron í forsetahöllinni en þeir ræddu saman símleiðis í gær.
5. desember síðastliðinn sagði Michel Barnier af sér sem forsætisráðherra eftir að vantrauststillaga hlaut meirihluta á þingi.
Tillagan að atkvæðagreiðslunni var þá lögð fram af vinstri flokkunum í þinginu en naut einnig stuðnings hinnar stóru Þjóðfylkingar, róttæks hægri flokks undir forystu Marine Le Pen sem situr í stjórnarandstöðu.
Macron sagði í kjölfarið að hann myndi nefna næsta forsætisráðherra innan nokkurra daga.