Tónlistarmaðurinn Elton John greindi frá því í viðtali nýlega að hann teldi lögleiðingu kannabis í hluta Norður-Ameríku vera „ein mestu mistök allra tíma“.
Þetta kemur fram í frétt Telegraph.
Elton, sem er 77 ára gamall, hefur verið edrú í hartnær 34 ár og hefur hjálpað öðrum frægum einstaklingum á borð við Eminem og Robbie Williams að ná tökum á sinni fíkn.
Tónlistarmaðurinn sagði í viðtalinu við Time Magazine, þar sem hann var útnefndur átrúnaðargoð ársins, að kannabis væri „ávanabindandi efni sem leiði til annarra fíkniefna“.
Þá bætti hann við: „Og þegar þú ert freðinn, og ég hef verið það, þá hugsarðu ekki eðlilega.“
Í viðtali sem Sir David Frost fjölmiðlamaður tók við Elton árið 1999 greindi hann frá því að hann væri að glíma við vandamál tengd hálsinum sínum, og þau væru af völdum marijúana. Hann sagðist hafa hætt að nota efnið vegna ráðlegginga lækna.
Í Kanada er kannabis löglegt frá 18 ára aldri, með ákveðnum takmörkunum.
Í nokkrum ríkjum Bandaríkjanna, þar á meðal í Kaliforníu, hafa verið settar takmarkanir á sölu kannabis, en leyfi til almennrar notkunar á kannabisi er fyrir þá sem eru 21 árs og eldri.