Móðirin sagði lögreglu að hann væri mögulega sá grunaði

Móðir Luigis Mangione sagði lögreglu að sonur sinn gæti mögulega …
Móðir Luigis Mangione sagði lögreglu að sonur sinn gæti mögulega verið sá sem grunaður er um morðið á Brian Thompson. AFP

Móðir Luigi Mangione, sem er grunaður um morðið á forstjóra stærsta sjúkratryggingafyrirtækis Bandaríkjanna, sagði lögreglu degi fyrir handtöku sonar síns að maðurinn sem leitað var að gæti verið sonur hennar. 

Bandaríski fjölmiðillinn NBC hefur þetta eftir heimildum sínum innan lögreglunnar. 

Lögreglumaður sá líkindi með hinum grunaða

Fjölskylda Mangione hafði tilkynnt að hans væri saknað 18. nóvember.

Í skýrslu lögreglunnar, sem rituð var þegar Mangione var tilkynntur týndur, segir að móðir hans hafi talað síðast við son sinn 1. júlí. Hún hafi sagt að hann hafi verið að vinna í San Francisco í Kaliforníu. 

Eftir morðið á Brian Thompson sá lögreglumaður í San Francisco líkindi með Mangione og manninum sem lögregla grunaði um morðið. 

Handtekinn daginn eftir upplýsingar frá móður hans

Ábending frá lögreglunni í San Francisco um líkindi Mangione og grunaða morðingjans kom 6. desember, tæplega tveimur vikum eftir að hann var tilkynntur týndur og tveimur dögum eftir morðið. 

Lögreglan hafði samband við móður Mangione tveimur dögum síðar, þann 8. desember, og sagði hún hinn grunaða geta verið son sinn.

Daginn eftir var hann handtekinn í Pennsylvaníu eftir að starfsmaður á McDonalds til­kynnti um mann sem var lík­ur þeim sem framdi morðið.

Frænka hins grunaða birti yfirlýsingu

Í frétt New York Post segir að Nino Mangione, þingmaður repúblikana í Maryland og frændi Luigi Mangione, hafi birt yfirlýsingu á samfélagsmiðlum fyrir hönd fjölskyldunnar þar sem sagði: 

„Fjölskylda okkar er í áfalli og niðurbrotin vegna handtöku Luigis. Við biðjum fyrir fjölskyldu Brians Thompson og biðjum fólk um að biðja fyrir öllum þeim sem tengjast málinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert