Óttast er að tala látinna nemi hundruðum eftir að fellibylurinn Chido reið yfir eyjuna Mayotte í Indlandshafi í gær.
Eyjan er undir frönskum yfirráðum. Yfirvöld á staðnum segja björgunarstarf erfitt, ekki síst vegna skemmda á flugbraut eyjunnar. Þá er vatnsskortur yfirvofandi.
Þrjátíu og sex dauðsföll eru staðfest. Haft er eftir François-Xavier Bieuville, æðsta embættismanni eyjunnar, á AFP að um hamfaraástand sé að ræða og að líkur séu á því að tala látinna muni nema hundruðum eða ríflega þúsund þegar uppi er staðið.
Búið er að færa um tíu þúsund manns í björgunartjöld og nokkur ringulreið þykir einkenna svæðið.
Mayotte er staðsett skammt frá Mósambík en þar búa um 310 þúsund manns. Margir eru sagðir hafa misst allar sínar eigur og þúsundir eru án rafmagns.
Vegir eru víða lokaðir vegna braks og ekkert símasamband er á hluta eyjunnar.
Vindhraði náði allt að 220 kílómetrum á klukkustund eða því sem nemur um 61 metra á sekúndu.