Fimm meðlimir ástralska fíkniefnahringsins Bali Nine sneru heim í dag eftir að hafa dvalið í fangelsi í Indónesíu í 19 ár.
Indónesíska lögreglan handtók níu Ástrala árið 2005 og sakfelldi þá fyrir að hafa reynt að smygla meira en átta kílóum af heróíni frá eyjunni Balí.
Málið vakti heimsathygli á sínum tíma vegna strangrar fíkniefnalöggjafar í Indónesíu.
Höfuðpaurar Bali Nine, Myuran Sukumaran og Andrew Chan, voru teknir af lífi árið 2015 en hinir afplánuðu þunga fangelsisdóma. Einn meðlimanna, Tan Duc Thanh Nguyen, lést hins vegar í maí 2018 vegna krabbameins. Þá var Renae Lawrence sleppt úr fangelsi í nóvember 2018.
Fimmmenningarnir sem nú eru komnir heim til Ástralíu eru þeir Matthew Norman, Scott Rush, Martin Stephens, Si Yi Chen og Michael Czugaj.
Anthony Albanese, forsætisráðherra Ástralíu, ræddi málið við fjölmiðla í dag. Hann þakkaði Prabowo Subianto, forseta Indónesíu, fyrir samstarfið. Þá sagði hann að löndin deildu áhyggjum af fíkniefnasmygli.
„Þessir Ástralar eyddu meira en 19 árum í fangelsi í Indónesíu. Það var kominn tími fyrir þá að koma heim,“ sagði Albanese enn fremur.