Hátt í þrjátíu vegum í Vestur-Noregi hefur verið lokað vegna aurskriða ellegar hættu á þeim í fárviðri sem nú gengur yfir vesturströnd landsins og eru um 5.000 íbúar byggðarlagsins Odda í Ullensvang nú innlyksa vegna þessa og komast ekki spönn frá rassi.
„Aðstæður eru krefjandi þar sem allir vegir til og frá Odda eru lokaðir,“ segir Roald Aga Haug bæjarstjóri við norska ríkisútvarpið NRK og hvetur þá sem sitja fastir til að halda ró sinni, huga að eigum sínum og ekki vera meira á ferðinni utanhúss en bráð nauðsyn krefur.
Eiðsfjörður í Harðangri hefur enn fremur einangrast vegna veðurofsans en brúin yfir fjörðinn er lokuð vegna skriðufalla og hættu á frekari skriðuföllum.
Gular viðvaranir norsku veðurstofunnar eru nú í gildi víða um landshlutann og eru íbúar hans hvattir til að halda sig fjarri bröttum hlíðum, lækjum og ám auk þess að fylgjast með fréttaflutningi og tilkynningum almannavarna.
Flugferðir og ferjusiglingar hafa einnig gengið úr skaftinu og hafa hvorar tveggju útgerðirnar, Color Line og DFDS, aflýst fjölda siglinga yfir þá fjölmörgu firði sem einkenna Vestur-Noreg auk þess sem ferjusiglingum við suðurströndina hefur einnig verið aflýst. Hefur síðarnefnda útgerðin gefið það út að um 3.300 farþegar sæti röskunum vegna ráðstafananna.
Kveður svo rammt að fárviðrinu að blikkþak í heilu lagi kom svífandi inn yfir Dalen í Odda og skall á húsi Gunnars Isachsens sem slapp með skrekkinn.