Rússnesk yfirvöld hafa greint frá því einn skipverji hafi látist úr ofkælingu þegar tvö rússnesk olíuflutningsskip hrepptu aftakaveður í gær.
Þá var einnig greint frá því að mikið magn eldsneytisolíu hefur lekið inn í Kerch-sund, sem er rétt undan strönd Krímskaga, eftir að skipin lentu í óveðrinu.
Annað skipið, Volgoneft-212, með 13 manns í áhöfn, tók niðri með þeim afleiðingum að stefni þess rifnaði af. Hitt skipið, Volgoneft-239, skemmdist mikið og strandaði eftir óveðrið.
Eins og áður segir lést einn skipverji í óveðrinu, en alls var 26 skipverjum úr áhöfnum beggja skipa bjargað úr þeim.
Sérfræðingar hafa verið sendir á vettvang til að „klára undirbúningsvinnu til að geta hreinsað upp eitthvað af olíunni sem lak“, sagði í yfirlýsingu ríkisstjórnar Rússlands.
Ekki kom fram í yfirlýsingunni hversu mikið magn lak út, en að það hafi verið einhver hluti þeirra 9.200 tonna af olíu sem tankskipin báru sín á milli, að því er rússneska ríkisrekna fréttastofan TASS greinir frá.
Umhverfisráðuneyti Úkraínu hefur sagt í tilkynningu að lekinn sé „verulegur“, og að hann „ógni lífríkinu í Svartahafi“. Í tilkynningunni eru Rússar sakaðir um að hafa ekki farið eftir reglum um siglingaöryggi.
Rússar hafa undanfarið notað flota gamalla tankskipa til að flytja út olíu í ljósi refsiaðgerða Vesturlanda síðan innrásir í Úkraínu hófust árið 2022.
Rússnesk yfirvöld hafa blásið til tveggja rannsókna sem er ætlað að skera úr um hvort brotið hafi verið gegn öryggisreglum þegar meint andlát átti sér stað á Volgoneft-212, en bæði skipin eru yfir 50 ára gömul.
Fyrirskipaði Vladimír Pútín Rússlandsforseti aðra rannsóknina, sem Vitalí Saveljev aðstoðarforsætisráðherra mun hafa yfirumsjón með, en hin er sakamálarannsókn.